„Þurfum að nýta þetta svekkelsi til góðs“

Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Þórs.
Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Þórs. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari karlaliðs Þórs í fótbolta, kom í stutt viðtal eftir leik Þórs og Stjörnunnar í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar. Þór tapaði á grátlegan hátt 1:0 og kom mark Stjörnunnar í blálok leiksins.

Þú ert nú búinn að vera þjálfari ansi lengi. Þetta tap hlýtur að vera eitt af þeim mest svekkjandi sem þú hefur þurft að kyngja.

„Já það er alveg 100% rétt.“

Stjarnan skorar í lokin. Það stefndi allt í framlengingu og þið búnir að spila þéttan og góðan leik. Stjarnan nær ekki að skapa neitt og fær varla færi í leiknum.

„Auðvita er þetta allt mjög svekkjandi en það er bara þannig að við eigum að vera búnir að nýta þá sénsa sem við fáum. Á meðan við gerum það ekki þá getur það komið í bakið á manni. Það er stutt í tapið ef þú skorar ekki mark.“

Varstu farinn að huga að framlengingunni? Þú notaðir bara tvo varamenn í leiknum.

„Já. Við vorum byrjaðir að skipuleggja framhald á leiknum. Hvað við ætluðum að gera. Menn voru orðnir nokkuð lúnir og það var meiningin að setja ferskar lappir inná. Það er þá bara leikur á laugardaginn og mætti segja að það gæti hjálpað þar að hafa sloppið við auka 30 mínútur.“

Það hefur kannski líka spilað eitthvað inní hjá ykkur hvað það var langt frá síðasta leik.

„Það er alltaf kúnst að stilla upp dögunum þegar það er langt á milli leikja. Hvernig maður æfir og hvernig ákefðin er og allt þetta. Maður reynir að vera eins ferskur og hægt er á leikdegi og ég held að við höfum gert þetta ágætlega. Nú þurfum við bara að gleyma þessum leik undir eins og æta gíraðir á æfingu á morgun. Við þurfum að nýta þetta svekkelsi til góðs, ekki fara með hausinn niður í bringu“ sagði þjálfarinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert