Einn sigur ekki næstum því nóg

Orri Hrafn Kjartansson á fleygiferð í kvöld.
Orri Hrafn Kjartansson á fleygiferð í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Ég er nokkuð sáttur við frammistöðuna,“ sagði Orri Hrafn Kjartansson leikmaður Fylkis í samtali við mbl.is eftir að liðið tapaði fyrir Víkingi úr Reykjavík, 1:3, á útivelli í átta liða úrslitum bikarkeppninnar í fótbolta í kvöld.

„Auðvitað er maður svekktur við að fá á sig tvö auðveld mörk í fyrri hálfleik. Okkar leikplan var að vera þéttir til baka og við gerðum það vel fyrstu 30 mínúturnar en svo var þungt að fá tvö mörk á sig með stuttu millibili.

Í hálfleik töluðum við um að halda okkar leikskipulagi. Það þýddi ekki að dvelja á þessu lengi. Róðurinn var orðinn þungur en við vitum að við getum skorað mörk. Við höfðum trú á þessu en það var svekkjandi að fá á sig þriðja markið,“ sagði Orri um leikinn.

Ómar Björn Stefánsson fékk úrvalsfæri til að minnka muninn í 3:2 í blálokin en lyfti boltanum yfir markið.

„Við skoruðum mark í lokin og fengum svo annað dauðafæri. Við vorum inni í þessu allan tímann. Þetta var óheppilegt í kvöld á báðum endum vallarins en við verðum að halda áfram.“

Fylkir er í botnsæti Bestu deildarinnar með aðeins einn sigur. Þrátt fyrir það er Orri bjartur fyrir framhaldinu.

„Við höfum sýnt flotta frammistöðu inn á milli og við erum alveg nógu góðir til að keppa við hvaða lið sem er. Við erum jákvæðir og við höldum áfram. Við ætlum að sækja okkur fleiri sigra, einn sigur er ekki næstum því nógu mikið,“ sagði Orri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert