Ólafsvíkingar áfram á sigurbraut

Ólafsvíkingar fagna einu af mörkum sínum á Ásvöllum í kvöld.
Ólafsvíkingar fagna einu af mörkum sínum á Ásvöllum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Víkingar í Ólafsvík eru áfram ósigraðir í 2. deild karla í fótbolta eftir öruggan útisigur gegn Haukum á Ásvöllum í Hafnarfirði í kvöld, 3:0.

Luke Williams, Daniel Ndi og Luis Romero skoruðu mörk Ólafsvíkinga sem styrktu stöðu sína í öðru sæti deildarinnar þar sem þeir eru með 15 stig en Selfyssingar eru með 16 á toppnum og  eiga leik til góða.

KFA komst upp í þriðja sætið með 13 stig með því að vinna Hött/Hugin í Austurlandsslag í Fellabæ í kvöld, 4:3. Marteinn Már Sverrisson og Eiður Orri Ragnarsson skoruðu tvö mörk hvor fyrir Fjarðabyggðarliðið en Martim Cardoso skoraði tvö mörk fyrir Múlaþingsmenn og Bjarki Fannar Helgason eitt.

Höttur/Huginn er í sjöunda sæti með 9 stig.

Loks vann Þróttur úr Vogum útisigur á Reyni í Sandgerði, 2:0, í Suðurnesjaslag. Jóhann Þór Arnarsson skoraði bæði mörkin í fyrri hálfleik.

Þróttarar komust upp í sjötta sætið með 10 stig en Sandgerðingar eru í tíunda sæti af tólf liðum með 4 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert