Flott byrjun á EM hjá Íslendingunum

Snorri Dagur Einarsson á fullri ferð í Belgrad í morgun.
Snorri Dagur Einarsson á fullri ferð í Belgrad í morgun. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

Evrópumeistaramótið í sundi í 50 metra laug hófst í Belgrad í Serbíu í morgun og fjórir íslenskir keppendur tóku þátt í morgunhlutanum.

Þeir Einar Margeir Ágústsson og Snorri Dagur Einarsson syntu 100 metra bringusund í morgun og syntu þeir gríðarlega vel, þeir bættu báðir sína tíma og voru fyrstir í sínum riðlum.

Snorri Dagur synti á tímanum 1:01,66 og var hársbreidd frá því að komast í undanúrslit, en síðasti tími inn í undanúrslitin var 1:01,41. Snorri átti áður 1:02,23. 

Einar Margeir bætti einnig sinn besta tíma í sundinu þegar hann synti á 1:02,39 en gamli tíminn hans var 1:03,77 og varð hann í 31. sæti af 50 keppendum.

Jóhanna Elín Guðmundsdóttir komin í mark í Belgrad í dag
Jóhanna Elín Guðmundsdóttir komin í mark í Belgrad í dag Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

Jóhanna Elín Guðmundsdóttir keppti í 100 metra skriðsundi í morgun þegar hún synti á tímanum 57,13 en hún varð í 29 sæti af 42 keppendum. Jóhanna á best 56,78. Hún mun einnig synda 50 metra skriðsund og 50 metra flugsund á mótinu.

Símon Elías Statkevicius synti 50 metra flugsund á tímanum 24,64 sem er alveg við hans besta tíma en hann á best 24,45. Símon endaði í 43 sæti af 59 keppendum.

Símon Elías Statkevicius stingur sér í laugina í Belgrad í …
Símon Elías Statkevicius stingur sér í laugina í Belgrad í dag. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

Á morgun mun Jóhanna Elín Guðmundsdóttir synda 50 metra flugsund, Símon Elías syndir 100 metra skriðsund og Birgitta Ingólfsdóttir syndir 100 metra bringusund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka