Valsliðið „skánað töluvert og er á uppleið“

Jónatan Ingi Jónsson var besti leikmaður Bestu deildar karla í …
Jónatan Ingi Jónsson var besti leikmaður Bestu deildar karla í maí samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins M-gjöf­inni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jónatan Ingi Jónsson, kantmaður Vals í Bestu deild karla, hefur komið vel inn í liðið frá því að hann kom í febrúar og er spenntur fyrir stórleik Vals gegn Víkingum í Bestu deild karla annað kvöld.

„Þetta verður geggjað. Við erum búnir að koma okkur í ágætis stöðu til þess að setja smá pressu á þá og mætum í leikinn til þess að sækja þrjú stig,“ sagði Jónatan á blaðamannafundi Vals fyrir leikinn en það munar aðeins fjórum stigum á liðunum.

Miklar væntingar voru til Vals fyrir tímabilið sem fékk meðal annars Jónatan og Gylfa Þór Sigurðsson til sín en byrjaði ekki vel. Eftir 2:0-sigur gegn ÍA í fyrsta leik gerði liðið markalaust jafntefli við Fylki, tapaði gegn Stjörnunni og gerði 1:1-jafntefli við Fram áður en liðið vann Breiðablik 3:2.

„Þetta var svona upp og niður byrjun. Við byrjuðum mjög vel en gerðum svo jafntefli við Fylki í annarri umferð en svo hefur þetta skánað töluvert og er á uppleið.

Við eigum eftir að eiga okkar besta leik sem vonandi kemur á morgun og heldur áfram inn í sumarið. Við eigum svo eftir að spila við Víking þrisvar og þetta er fyrsti af þeim leikjum,“ sagði Jónatan.

Valur hélt blaðamannafund fyrir leikinn og kallaði leikinn þann stærsta á árinu á samfélagsmiðlum svo mikil umfjöllun hefur skapast og fólk er spennt fyrir leiknum.

„Það er búið að seljast vel á leikinn og vonandi heldur það áfram og það verður alvöru stemning.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert