Gylfi: Ætlaði að fagna fyrir framan hann

Gylfi í miklum hasar eftir að Ívar Orri Kristjánsson dæmdi …
Gylfi í miklum hasar eftir að Ívar Orri Kristjánsson dæmdi víti. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er sáttur með að við náðum að jafna,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson, sem skoraði bæði mörk Vals í 2:2-jafntefli gegn Víkingi úr Reykjavík í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld, í samtali við mbl.is eftir leik.

„Auðvitað er samt líka svekkjandi að vinna ekki á heimavelli. Leikirnir þróast ekki alltaf eins og þú óskar eftir. Á móti Víkingi erum við sáttir með stig, 2:1 undir 90. mínútu,“ bætti Gylfi við.

Hann skoraði bæði mörkin úr vítum, það seinna í uppbótartíma. Ívar Orri Kristjánsson tók sér tíma áður en hann blés í flautu sína.

„Hann dæmdi víti, þá var þetta víti. Hvort það var réttur dómur veit ég ekki. Ingvar kom hratt út og ég var ekki í stöðu til að sjá hvort hann hafi farið í Guðmund Andra.

Ég er með mína rútínu og svo var Ingvar eitthvað að gaspra í markinu. Ég tók góða ákvörðun áður en ég skaut,“ sagði Gylfi um vítaspyrnudóminn og vítið sitt.

Gylfi og Ingvar Jónsson í marki Víkings gáfu hvor öðrum fimmu eftir fyrra mark Gylfa en mikill hasar varð eftir að vítið var dæmt.

„Ingvar var að reyna að taka mig á taugum og ég ætlaði að fagna fyrir framan hann. Það er gott á milli okkar og hann bauð mér fimmu sem ég tók.“

Gylfi lék sinn fyrsta heila leik í rúman mánuð í kvöld en hann hefur verið frá keppni vegna meiðsla og missti af fjórum síðustu leikjum Valsmanna í deildinni.

„Heilsan er fín en ég er svolítið þreyttur í líkamanum. Við vorum að spila á móti góðu liði Víkings og þetta er fyrsti leikurinn minn í töluvert langan tíma en mér líður nokkuð vel,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert