„Við vorum aðeins óöruggir fyrstu fimmtán mínúturnar en svo varð það betra en það var mjög svekkjandi að fá þessi mörk á sig á síðustu mínútunum því mér fannst við verjast betur en í síðasta leik okkar og lengst af í þessum leik vorum við góðir,“ sagði Gregg Ryder þjálfari KR eftir 2:1 tap fyrir ÍA þegar liðin mættust á Akranesi í kvöld og leikið var í 10. umferð efstu deildar karla í fótbolta.
„Við ætluðum okkur að vinna leikinn og ég skipti mönnum inná lokin til að koma með meiri kraft í leikinn því við stefnum alltaf á að vinna leiki en þegar það gengur ekki viljum við þó fá eitt stig.“
KR-ingar komu boltanum í netið í lokin en það var ekki mark því dómarinn var að spjalda leikmenn þegar boltinn fór í gang og Gregg segir að dómarinn ráði. „Ég get ekki sagt neitt um ákvarðanir dómara, ef hann segir að þetta hafi ekki verið mark hjá okkur var ekki mark hjá okkur því hann flautaði ekki en stundum hefði þetta mark staðið en ég get ekkert sagt um dómarann,“ bætti Gregg við.