Þrátt fyrir fjör og færi í fínasta leik vantaði lengi vel mörkin þegar KR sótti ÍA heim á Skipaskagann í kvöld og í lokin skoruðu Skagamenn tvö mörk en ballið var ekki búið því KR-ingar náðu að minnka muninn í uppbótartíma en það dugði ekki til – ÍA vann 2:1.
Fjörið byrjaði fljótlega og Benóný Breki Andrésson átti góða skalla af stuttu færi en það var vel varið í horn. Hinu megin fékk Viktor Jónsson gott færi stutt frá markinu en það var líka vel varið í horn. Þetta var alveg í samræmi við leikinn því liðin skiptust á að gæta sín í vörninni og vera síðan snögg fram enda skapaði það oft usla.
Á 20. mínútu kom síðan frábært færi Skagamanna þegar þeir spiluðu sig glæsilega upp hægri kantinn og boltinn var svo sendur út í teig en þrumuskot Jóns Gísla Eyland small í slánni. Alveg frábær sókn með flottum sendingum sem KR-ingar gátu ekki komið í veg fyrir.
Það var líka hraði og sprettur eftir hlé nema hvað nú létu opnu færin á sér standa þó liðin reyndu að ná þungum sóknum til skila færum. Þegar leið á leikinn fór að örla á örvæntingu í sóknarleik beggja liða til að ná langþráðu marki.
Á 85. mínútu gerðist eitthvað, Viktor Jónsson Skagamaður fékk boltann rétt utan við teig, lagði fyrir sig og skaut svo hnitmiðað niður í vinstra hornið, staðan 1:0. Rétt á eftir skoraði Marco Vardic annað mark fyrir ÍA með skalla af stuttu færi þegar hann stóð upp úr í ati inni í markteig KR. Staðan 2:0.
KR-ingar hættu ekki, bættu í sóknina og Eyþór Wöhler minnkaði muninn í 2:1 í uppbótartíma þegar hann skoraði af stuttu færi eftir basl á marklínu Skagamanna. Á síðustu mínútu í 5 mínútna uppbótartíma fékk KR svo horn og allir mættu á svæðið inn í vítateig heimamanna en ekki tókst að jafna.
Með sigrinum komst ÍA upp um eitt sæti, í það fjórða, og KR er enn í 8. sæti deildarinnar en í næstu umferð fara í Víkina til móts við Víkinga og Skagamenn fara í Kópavoginn til Breiðabliks.