„Þeir drógu lengra stráið“

Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram.
Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram. Ljósmynd/Kristinn Steinn

HK hafði betur gegn Fram, 2:1, í 10. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í Úlfarsárdalnum í kvöld. Rúnar Kristinsson mætti í viðtal til mbl.is eftir leik.

„Þetta voru gríðarleg vonbrigði. Fyrri hálfleikurinn var mjög góður og við hefðum hæglega getað komist í 2:0 eða 3:0,“ sagði Rúnar í viðtali við mbl.is eftir leik.

Fram var 1:0 yfir í hálfleik með mikla yfirburði og náði HK lítið að ógna marki Fram. Hins vegar mætti HK af miklum krafti í síðari hálfleik og jafnaði leikinn með sjálfsmarki frá Brynjari Gauta Guðjónssyni. Fimm mínútum síðar skoraði Þorsteinn Aron Antonsson sigurmarkið fyrir HK.

„Ég er bara ósáttur við hvernig seinni hálfleikurinn þróast. Við byrjum vel og pressum þá og reynum að koma þeim í vesen en þeir náðu að koma boltanum á stóru framherjana sína og halda honum aðeins þar.

Sjálfsmarkið er mikil heppni og það opnar leikinn fyrir þá. Við vildum vinna eins og þeir en þeir drógu lengra stráið í restina,“ sagði Rúnar.  

Fram situr í sjöunda sæti með 13 stig eftir 10 umferðir. Liðið byrjaði tímabilið frábærlega en hefur nú ekki unnið leik í deildinni síðan í byrjun maí gegn Fylki.

„Við erum búnir að eiga slaka leiki, fimm í röð núna. Okkur hefur ekki tekist að safna mörgum stigum, ekki búnir að vinna og höfum á sama tíma ekki verið að spila sérstaklega vel. Við þurfum að bæta okkur töluvert en við vissum að þetta yrði ekki dans á rósum í allt sumar,“ sagði Rúnar.

Fram fer norður í næstu umferð og mætir KA. Liðin mættust í síðustu viku í bikarnum og sigraði KA, 3:0.

„Leikurinn leggst bara vel í mig. Við töpuðum þar illa síðustu helgi og við þurfum að laga mikið frá þeim leik til að eiga séns,“ sagði Rúnar að lokum, aðspurður um næsta leik gegn KA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert