„Vakna með bros á vör á morgun"

Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK.
Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK. Ljósmynd/Kristinn Steinn

HK lagði Fram að velli, 2:1, í 10. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í Úlfarsárdal í kvöld. Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK, var sáttur með sigurinn í viðtali við mbl.is eftir leik.

„Ég er ótrúlega ánægður með strákana í seinni hálfleiknum. Hvernig þeir komu út í seinni hálfleikinn og bara keyrðu á þetta og brutust út úr skelinni,“ sagði Ómar Ingi í viðtali við mbl.is eftir leik.

HK var 1:0 undir í hálfleik og var Fram með mikla yfirburði. HK mætti í seinni hálfleikinn af miklum krafti og náði að skora tvö mörk á fimm mínútna kafla. Ómar segir að hálfleiksræða sín hafi verið einföld.

„Ég bað þá um að koma með eitthvað óvænt, gera eitthvað öðruvísi og þora,“ sagði Ómar Ingi.

HK hefur skorað fæst mörk allra liða í deildinni en framherji þeirra, Atli Þór Jónasson, snéri til baka frá meiðslum í dag og lagði upp sigurmark HK.

„Atli Þór var búinn að vera drjúgur fyrir okkur, bæði í mörkum og að leggja upp mörk áður en hann meiðist. Hann kemur hér inn á og leggur upp markið á Þorstein [Aron Antonsson]. Það segir sig alveg sjálft að leikmaður sem er að koma að marki í hverjum einasta leik skiptir okkur alveg rosalega miklu máli,“ sagði Ómar.

Þið eigið heimaleik gegn Stjörnunni í næstu umferð, hvernig leggst hann í þig?

„Leikurinn leggst töluvert betur í mig akkúrat núna heldur en það gerði í hálfleik, hefði ég fengið spurninguna. Það er stutt í hann og gott að fara með sigurtilfinningu og að menn vakna með bros á vör á morgun. Nú er það að varðveita þessa ánægju og tilfinningu sem var inn í klefa og sækjast eftir henni aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert