Vil því ekki tjá mig

Gunnar Vatnhamar í baráttunni við Gylfa Þór Sigurðsson í kvöld.
Gunnar Vatnhamar í baráttunni við Gylfa Þór Sigurðsson í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er mjög vonsvikinn,“ sagði Færeyingurinn Gunnar Vatnhamar leikmaður Víkings úr Reykjavík í samtali við mbl.is eftir jafntefli, 2:2, gegn Val í toppslag 10. umferðar Bestu deildar karla í fótbolta í kvöld.

Gylfi Þór Sigurðsson tryggði Val eitt stig með marki úr víti í uppbótartíma.

„Það kom fyrirgjöf og þrír leikmenn fóru í boltann og okkar maður náði í boltann og síðan skullu Ingvar og Guðmundur saman. Hann ákvað að dæma. Ég þekki ekki reglurnar og vil því ekki tjá mig.“

Hann var ekki sérstaklega ánægður með spilamennsku Víkings í kvöld.

„Þetta var erfiður leikur með mikið af einvígjum. Bæði lið áttu sín augnablik en við bökkuðum of mikið í seinni hálfleik og það gefur þeim tækifæri til að jafna.

Við getum spilað betur en við gerðum í dag. Við áttum okkar augnablik í fyrri hálfleik sérstaklega en við getum gert betur. Við reyndum að verja stigið og því miður skoruðu þeir í lokin.“

Tæplega 2.000 manns lögðu leið sína á Hlíðarenda í kvöld og var stemningin glæsileg.

„Þetta var æðislegt og mikil læti. Stemningin, okkar megin sérstaklega, var klikkuð. Ég vil þakka þeim fyrir stuðninginn, hann gefur okkur mikið. Við skoruðum seinna markið þökk sé þeim,“ sagði hann.

Alls fóru níu gul spjöld á loft í kvöld og var mikill hiti í leiknum. „Allir vilja vinna og allir vilja vinna hvert einasta einvígi. Þá verður til hiti og þannig á það að vera,“ sagði Gunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert