„Allir að vinna hver fyrir annan “

Ívar Örn Árnason í baráttu á Kópavogsvelli í kvöld.
Ívar Örn Árnason í baráttu á Kópavogsvelli í kvöld. Eggert Jóhannesson

Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, í Bestu deild var ánægður með leik sinna manna þrátt fyrir 2:1 tap gegn liði Breiðabliks á Kópavogsvelli í kvöld. KA er í neðsta sæti deildarinnar með aðeins fimm stig eftir 10 leiki.

„Ég er bara virkilega ánægður með mitt lið. Við spilum bara mjög góðan leik. Það má færa rök fyrir því að þetta sé kannski besta frammistaðan okkar í sumar. Það er ekki auðvelt að koma hingað á Kópavogsvöll, verandi neðstir í deildinni en þetta var bara gott framhald af bikarleiknum sem við unnið 3:0.

Strákarnir spiluðu bara mjög góðan leik. Við lendum undir þegar við skorum skrautlegt sjálfsmark sem því miður kom fyrir okkar strák. Svona getur gerst. Við brotnum ekki, við komum til baka og jöfnuðum metin. Klúðrum svo dauðafæri inn í markteig.

Eina sem ég er svekktur með að við förum ekki með neitt héðan úr Kópavoginum en þessi frammistaða var virkilega góð. Við erum að mæta virkilega góðu liði sem hafa náð mjög góðum úrslitum á heimavelli og við vissum alveg að við værum ekki að fara stjórna leiknum frá A-Ö en við erum mjög flottir í dag.

Það voru allir að vinna fyrir hvern annan sem mér finnst vera framhald af Fram-leiknum í vikunni og við sköpum nóg til að fara með eitt stig og jafnvel þrjú stig heim. Því miður var það bara ekki þannig og ég held að allir sem kíkja á færin og mörkin sjá það að frammistaðan sé virkilega góð.

Ég talaði við strákana inn í klefa inn eftir leik og sagði þeim að ég þyrfti svona frammistöðu í hverri einustu viku. Ef við gerum það þá förum við að hala inn stigum og komum okkur úr fallsætinu. Við erum í botnbaráttu, við verðum í botnbaráttu lengi en ef menn eru tilbúnir að leggja sig svona fram þá munu stigin hrúgast inn,” sagði Hallgrímur við blaðamann mbl.is eftir leikinn.

Þannig að þú hefur engar áhyggjur á þessum tímapunkti?

„Maður hefur alltaf áhyggjur. Við erum neðstir í deildinni. Við hef ekki áhyggjur af spilamennskunni núna. Ég var ekki ánægður með spilamennskuna eins og hún var hjá okkur fyrir vikum og mánuðum síðan. Mér fannst vanta smá hungur í allt hjá KA, hjá leikmönnum og hjá öllu batteríinu og mér finnst það vera komið núna.

Það er bara þannig að sigrar eins og þessi í bikarnum hann gefur manni alltaf eitthvað. Ég held að við séum komnir yfir svekkelsið í kvöld og hittumst á næstu æfingu þá átta menn sig á því að þetta var frábær frammistaða. Þetta er bara framhald af því sem við ætlum okkur að gera,” bætti Hallgrímur við.

En þetta hlýtur að hafa verið svekkjandi að fá ekkert úr þessu í kvöld? Þið fenguð vissulega færi til að skora fleiri mörk. Viðar Örn komst til dæmis einn í gegn í blálokin en náði ekki að setja boltann í netið.

„Stundum er þetta bara þannig. Ég held að það hafi flestir séð það að það var brotið á Viðari í færinu hans. Það er togað í hann og þess vegna kemst hann ekki aleinn í gegn þannig að hann er með hann í sér í færinu. Það er auðvitað pirrandi en maður bara tekur með sér þessa góða frammistöðu. Það er það sem við tökum með okkur,” sagði Hallgrímur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert