Breiðablik einu stigi frá toppnum

Höskuldur Gunnlaugsson með boltann í leiknum í dag.
Höskuldur Gunnlaugsson með boltann í leiknum í dag. mbl.is/Eggert Johannesson

Breiðablik vann góðan 2:1 sigur á liði KA í Bestu deild karla á Kópavogsvelli í kvöld.Kári Gautason, leikmaður KA, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 43. mínútu leiksins en Hallgrímur Mar Steingrímsson jafnaði metin fyrir KA á 50. mínútu með góðu skoti. Sigurmark Breiðabliks skoraði svo Viktor Karl Einarsson á 74. mínútu leiksins og tryggði Blikum þar með öll þrjú stigin sem í boði voru.

Breiðablik er núna aðeins einu stigi á eftir Víkingum sem eru á toppnum með 26 stig í deildinni. KA er aftur á móti á botni deildarinnar með aðeins fimm stig eftir 11 umferðir.

Leikmenn Breiðabliks byrjuðu leikinn mjög vel og voru oft ansi nálægt því að setja boltann í netið. Sérstaklega var það Aron Bjarnason sem var sprækur á vinstri kantinum. Á 7. mínútu leiksins átti Aron einmitt góða sendingu sendingu fyrir á Kristinn Steindórsson sem náði fínu skoti en Ívar Örn Árnason náði að verja á línu. Þegar það fór á líða á leikinn náðu KA-menn að verjast betur og sækja meira á heimamenn án þess að skapa sér alvöru marktækifæri. Besta færi KA í fyrri hálfleik fékk Bjarni Aðalsteinsson en hann átti gott skot á mark Breiðabliks á 40. mínútu leiksins en Anton Ari Einarsson náði að slá boltann frá markinu. En á 43. mínútu náðu leikmenn Breiðabliks að skora en það verður að segjast að markið var ansi slysalegt. Viktor Karl Einarsson átti þá flotta sending á Aron Bjarnason sem setti boltann fyrir mark KA og þar var það Kári Gautason, varnarmaður KA, sem þrumaði boltanum í eigið mark af stuttu færi.

Gestirnir komu sprækir til leiks í upphafi seinni hálfleiks og á 50. mínútu leiksins áttu KA-menn góða sókn sem endaði með marki. Þá átti Sveinn Margeir Hauksson flotta sendingu upp vinstri kantinn á Harley Willard og hann var fljótur að koma boltanum út í teiginn og þar var Hallgrímur Mar Steingrímsson og setti boltann í netið. KA-menn fengu frábært tækifæri til að komast yfir á 56. mínútu en þá setti Ásgeir Sigurgeirsson boltann yfir af stuttu færi. Eftir þetta tóku leikmenn Breiðabliks öll völd á vellinum og sóttu hart að marki KA-manna. Aron Bjarnason átti til dæmis gott skot á 69. mínútu sem fór í varnarmann og í horn.Það var svo á 74. mínútu leiksins að Breiðablik skoraði sigurmarkið en þar var á ferðinni Viktor Karl Einarsson en hann negldi boltanum í netið at stuttu færi eftir frábæra sending frá Aroni Bjarnasyni. Viðar Örn Kjartansson, leikmaður KA, sem kom inn á sem varamaður um miðjan seinni hálfleikinn fékk tækifæri til að jafna metin í uppbótartíma þegar hann komst einn í gegn en Anton Ari varði vel frá honum og stuttu seinna var flautað til leiksloka.

Þessi sigur kemur Blikum í 25 stig en liðið er í öðru sæti deildarinnar  aðeins einu stigi á eftir liði Víkings eftir 11 umferðir. KA er aftur á móti áfram á botni deildarinnar með aðeins fimm stig.

Bæði lið eiga aftur leik á sunnudaginn í Bestu deildinni. Breiðablik mætir liði ÍA á Kópavogsvelli klukkan 19:15 en KA spilar á Akureyri gegn liði  Fram klukkan 17:00.

Breiðablik 2:1 KA opna loka
90. mín. Elvar Árni Aðalsteinsson (KA) kemur inn á +1
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert