Víkingur úr Reykjavík mun mæta Sparta Prag frá Tékklandi í 2. umferð undankeppni Meistaradeildar karla í knattspyrnu ef liðið vinnur Shamrock Rovers frá Írlandi í 1. umferð.
Dregið var í aðra umferð í höfuðstöðvum UEFA í dag en Sparta Prag var eitt af fjórum liðum sem Víkingur gat mætt. Hin þrjú voru Bodö/Glimt, Midtjylland og Malmö.
Sigur í 1. umferðinni gegn Shamrock tryggir Víkingum jafnframt a.m.k. sæti í 3. umferð undankeppni Evrópudeildar og um leið úrslitaleik um sæti í riðlakeppni Evrópudeildar eða Sambandsdeildar, en það er nákvæmlega sú leið sem Blikar fóru í fyrra.
Ef Víkingar tapa fyrir Shamrock Rovers færast þeir yfir í 2. umferð undankeppni Sambandsdeildar og mæta þá tapliðinu úr einhverju eftirtalinna einvígja:
Slovan Bratislava (Slóvakíu) - Struga (N-Makedóníu)
KÍ Klaksvík (Færeyjum) - Differdange (Lúxemborg)
The New Saints (Wales) - Decic (Svartfjallalandi)
Borac Banja Luka (Bosníu) - Egnatia (Albaníu)
Ballkani (Kósovó) - UE Santa Coloma (Andorra)
Virtus (San Marínó) - FCSB (Rúmeníu)
Dregið verður til 2. umferðar undankeppni Sambandsdeildarinnar í hádeginu.