ÍR fyrst að vinna Fjölni - glæsilegt jöfnunarmark Þróttar í Keflavík

Fjölnismaðurinn Daníel Ingvar Ingvarsson með boltann í leiknum gegn ÍR …
Fjölnismaðurinn Daníel Ingvar Ingvarsson með boltann í leiknum gegn ÍR í kvöld. mbl.is/Eggert

ÍR vann óvæntan sigur á Fjölni, 3:1, í 1. deild karla í knattspyrnu í Breiðholtinu í kvöld og Þróttarar náðu óvæntu stigi með jafntefli gegn Keflvíkingum á útivelli, 1:1.

Fjölni mistókst þar með að komast aftur á topp deildarinnar, tapaði sínum fyrsta leik á tímabilinu og er með 17 stig í öðru sæti en Njarðvík er með 19 stig á toppnum. 

ÍR-ingar unnu sinn fyrsta leik síðan í fyrstu umferðinni og eru komnir með 9 stig í sjöunda sæti deildarinnar.

Keflvíkingar fóru upp í fimmta sætið með 10 stig og Þróttarar komust upp úr fallsæti, upp fyrir Þór og í 10. sætið með 6 stig.

Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleiknum í Keflavík en á 55. mínútu fékk Ari Steinn Guðmundsson boltann frá Edon Osmani rétt innan vítateigs og skoraði með viðstöðulausu skoti, 1:0 fyrir Keflavík. 

Úkraínumaðurinn Kostiantyn Iaroshenko jafnaði fyrir Þróttara beint úr aukaspyrnu, með glæsilegu skoti af 25 metra færi í stöng og inn, á 85. mínútu, 1:1.

Fjögur mörk í seinni hálfleik

Staðan var markalaus í hálfleik hjá ÍR og Fjölni í Skógarseli en það breyttist fljótt eftir hlé. Á 50. mínútu tók Guðmundur Karl Guðmundsson fyrirliði Fjölnis hornspyrnu frá vinstri. Vilhelm markvörður ÍR sló boltann frá en Bjarni Þór Hafstein fékk hann á miðri vítateigslínu og hamraði hann upp undir þverslána, 1:0 fyrir Fjölni.

En aðeins fjórum mínútum síðar fékk Kristján Atli Marteinsson boltann á hægri kantinum, lék í átt að vítateig og skoraði með glæsilegu skoti upp í markhornið nær, 1:1.

ÍR komst síðan yfir á 83. mínútu þegar Emil Nói Sigurhjartarson átti skot sem Halldór Snær Georgsson í marki Fjölnis varði. Bragi Karl Bjarkason fylgdi á eftir á markteig og skoraði, 2:1.

Það var síðan Bragi Karl sem innsiglaði sigurinn í uppbótartíma, 3:1. Hann fylgdi eftir eigin stangarskoti eftir snögga sókn liðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert