Hafa aldrei farið á landsliðsæfingu

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA.
Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Við höfum oft verið betri en í dag en sigurinn er góður og á töflunni lítur þetta vel út. Ég nenni ekki að vera að kvarta eftir þennan leik“ sagði Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, eftir að lið hans hafði unnið 3:1-sigur á Fylki í Bestu-deild kvenna í fótbolta í kvöld.

Þór/KA hangir í Blikum og Val í toppbaráttunni.

Þú gerir töluverðar breytingar á byrjunarliðinu frá síðasta leik og svo tvær breytingar strax í hálfleik með allskyns tilfæringum inni á vellinum. Það er mikið umleikis og margir leikmenn sem þarf að sýsla með.

„Þetta var allt fyrirfram ákveðið. Hulda ósk átti bara að spila hálfleik og við erum líka að koma Amalíu inn aftur eftir erfiðan meiðslatíma. Agnes er líka mjög tæp á meiðslum og við getum notað Bryndísi í miðverðinum.

Það er bara gleðiefni að við erum að fá inn fleiri leikmenn núna, sem hafa verið frá um mislangan tíma og enn fleiri í næsta leik og leikjum. Þá verður kominn höfuðverkur aftur að velja átján manna hópinn.“

Það kannski veitir ekki af öllum þessum leikmönnum. Það koma leikir á færibandi núna og fáir dagar á milli. Þið spilið næst gegn Val á þriðjudag og svo gegn Blikum í bikarkeppninni á föstudag. Svo er leikur gegn FH skömmu síðar. Þetta eru allt heimaleikir. Þú ert greinilega að nota hópinn skynsamlega og það er ekki verið að þjösnast neitt á þeim. Það var nú góð grein í Morgunblaðinu fyrir rúmri viku um alla leikmennina sem klekjast út hér á Akureyri. Það virðist vera flott starf unnið hér og það er höfuðverkur fyrir þig að halda bara út einu liði.

„Þetta var skemmtileg samantekt og umhugsunarverð. Ég er svo sammála öllu því sem hér er að koma fram. Yngstu stelpurnar sem eru í byrjunarliðinu í dag hafa ekki marga leiki á bakinu í meistaraflokki en þær hafa samt forskot.

Að byrja inn á hjá liði sem er í toppbaráttu í efstu deild er alls ekki sjálfgefið. Það á ekki einu sinni að vera sjálfgefið að vera í hóp. Þessar stelpur eru ekki þarna vegna skorts á leikmönnum. Þær hafa bara unnið fyrir sínu og eru komnar skrefi á undan flestum jafnöldrum sínum.

Svo verðum við bara að velta því fyrir okkur, þjálfararnir og allt fólkið sem stendur að kvennaboltanum hér í bænum, hvers vegna flestar af þessum yngstu stelpum í liðinu okkar hafa aldrei farið á neina landsliðsæfingu. Mér finnst það undarlegt.

Þetta eru stelpur sem eru að byrja leiki í liði sem er að berjast við stórveldin og risana í kvennaboltanum. Þær eiga það alveg skilið og eru líka að skila sínum hlutverkum vel. Þær leggja líf og sál í þetta. Þessar stelpur eiga heiður skilinn og ég er hrikalega ánægður með þær.“

Þær búa líka að því að hafa verið í sigursælum liðum í gegnum yngri flokkana. Það hlýtur að telja.

„Heldur betur. Þú sérð bara eins og í leiknum í dag. Við sem erum fyrir utan völlinn erum að reyna að setja upp leikina og aðstoða utan frá og í hálfleik. En þegar öllu er á botninn hvolft þá eru þetta leikmenn og lið sem veit hvað þarf til að vinna leiki.

Það er það sem skilur að í dag. Flestir í mínu liði voru ekki á deginum sínum. Það var einhver spenna og það sást á sendingunum í fyrri hálleik. Leikmenn voru svo orkumiklir og ætluðu að klára þetta í hvelli. Við fórum hratt í aðgerðir og ætluðum að gera tvö mörk í einu.

Þær komust yfir þetta á endanum, misstu aldrei móðinn og hægt og bítandi þá kom þetta. Flestir mínir leikmenn hafa unnið mikið í yngri flokkunum og þetta mallar. Það er ekki nóg að kunna fótbolta. Það þarf líka að kunna að vinna,“ sagði vígreifur þjálfarinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert