Viktor Jónsson skoraði fernu í gær þegar Skagamenn burstuðu HK, 8:0, í Bestu deild karla í fótbolta og hann er þar með fyrsti leikmaður ÍA í 46 ár sem skorar meira en þrjú mörk í leik í deildinni.
Síðastur til þess var Pétur Pétursson, núverandi þjálfari kvennaliðs Vals, en hann skoraði fjögur mörk þegar ÍA vann KA 5:0 á Akureyrarvelli 22. júní 1978.
Á undan honum var það Teitur Þórðarson sem skoraði sex mörk fyrir ÍA þegar liðið vann Breiðablik 10:1 á Akranesvelli sumarið 1973.
Næstur á undan honum var Þórður Þórðarson, faðir Teits, sem skoraði fjögur mörk í sigri á Fram, 6:4, árið 1958. Þórður hafði áður tvívegis skorað fjögur mörk í leik fyrir ÍA, gegn ÍBA frá Akureyri árið 1956 og gegn Þrótti úr Reykjavík árið 1955.
Sá fyrsti var hins vegar Ríkharður Jónsson sem skoraði fjögur mörk fyrir ÍA í 6:2 sigri á Víkingi árið 1952.
Á hinu glæsilega sigurskeiði Skagamanna þegar þeir urðu Íslandsmeistarar fimm ár í röð, frá 1992 til 1996, skoruðu þeirra leikmenn níu sinnum þrennu í deildinni, Arnar Gunnlaugsson, núverandi þjálfari Víkings gerði fimm þeirra, en engin ferna leit dagsins ljós á þeim tíma.
Viktor hefur nú skorað bæði þrennu og fernu á tímabilinu, í bæði skiptin gegn HK, en þrennan kom í apríl þegar ÍA vann HK 4:0 í Kórnum í Kópavogi. Viktor hefur því skorað sjö af 12 mörkum sínum í deildinni í ár gegn Kópavogsliðinu.
Þá skoraði hann þrennu á tíu mínútum í báðum leikjunum. Öll þrjú mörkin í fyrri leiknum gegn HK komu á tíu mínútna kafla í síðari hálfleik, frá 60. til 70. mínútu, og þrjú af mörkunum fjórum gegn HK í gær komu á tíu mínútna kafla í síðari hálfleik, frá 73. til 83. mínútu.
Þá er Viktor fyrsti leikmaðurinn í 11 ár til að skora meira en þrjú mörk í leik í efstu deild karla hér á landi. Síðast var það FH-ingurinn Björn Daníel Sverrisson, sem einmitt gerði mörkin á Akranesvelli, gegn ÍA, í 6:2 sigri Hafnarfjarðarliðsins árið 2013.
Fjögur mörk og fleiri í leik í deildinni frá aldamótum hafa eftirtaldir skorað:
4 - Andri Sigþórsson skoraði fjögur mörk fyrir KR gegn Stjörnunni í 4:1 sigri árið 2000.
4 - Allan Borgvardt skoraði fjögur mörk fyrir FH gegn Grindavík í 8:0 sigri árið 2005.
5 - Björgólfur Takefusa skoraði fimm mörk fyrir KR gegn Val í 5:2 sigri árið 2009
4 - Björn Daníel Sverrisson skoraði fjögur mörk fyrir FH gegn ÍA í 6:2 sigri árið 2013.
4 - Viktor Jónsson skoraði fjögur mörk fyrir ÍA gegn HK í 8:0 sigri árið 2024.
Leiðrétting:
Upphaflega fréttin hefur verið leiðrétt en fyrst var sagt að Teitur Þórðarson hefði verið síðastur á undan Viktori til að skora meira en þrjú mörk í leik. Það var hins vegar Pétur Pétursson.