Þór/KA lagði Þrótt, 4:2, í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í Laugardalnum í dag. Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þór/KA, mætti í viðtal til mbl.is eftir leik.
„Ég er bara ánægður með að hafa unnið þennan leik, ég verð að viðurkenna það. Þetta er endirinn á rosalegri törn, alveg svívirðilegri törn og bara frábær karakter hjá stelpunum að vinna þennan leik,“ sagði Jóhann í viðtali við mbl.is eftir leik.
Þór/KA hafði fyrir leikinn í dag tapað þremur leikjum í röð. Fyrst gegn Val í deildinni, 2:1, síðan Breiðablik í bikarnum, 2:1, og að lokum FH í síðustu umferð, 1:0.
„Þetta var högg í magann og högg í magann og síðan var bara bensínleysi í þriðja leiknum á móti FH. Þar hittu þær á okkur á góðum tíma en Valur og Breiðablik þar vorum við að spila taktískt og orkan mikil og því miður fengum við ekkert út úr því.
Það er mjög erfitt að koma í þennan leik eftir þetta. En sem betur fer þá var það frábær fyrri hálfleikur sem skóp þennan góða sigur í dag.“
Sandra María Jessen skoraði þrennu fyrir Þór/KA í dag og lagði Hulda Ósk Jónsdóttir upp öll fjögur mörkin. Jóhann var ánægður með þær og einnig frammistöðuna hjá liðinu.
„Þær taka heldur betur fyrirsagnirnar úr þessum leik en ég horfi líka í hina leikmennina sem gjörsamlega skilja lungun eftir á vellinum. Ég veit ekki hvaðan mjólkursýran kemur sem þær eru að ná í eftir álagið undanfarnar vikur,“ sagði Jóhann.
Þór/KA var með algjöra yfirburði í fyrri hálfleik og fór inn í hálfleikinn með 3:0 forystu. Síðari hálfleikurinn var töluvert slakari og skoraði Þróttur tvö mörk.
„Seinni hálfleikurinn var ekki góður en þetta er bara algengt. Við töluðum um þetta í hálfleik, það er erfitt að finna áhuga og hvöt, að koma inn þegar þú ert með 3:0 forystu. Það virðist vera alveg sama hvað ef þú kemur inn, tekur fótinn aðeins af bensíngjöfinni en hitt liðið ætlar líka að spyrna við fótum og þær gerðu það vel,“ sagði Jóhann.
Framundan er landsleikjahlé og segir Jóhann ætla að nýta það í góða pásu.
„Það verður löng og góð pása og svo byrjum við þegar fer að líða á næstu viku að skoða Víkingsleikinn sem er 19. júlí sem mér finnst heldur stutt frá landsliðsverkefninu. Kannski er það þannig að það eru ekki margir að spila á Íslandi.
Sandra [María Jessen] fær ekki mikla pásu og það er ekki gott og við þurfum að hugsa betur um leikmennina okkar. Einhverjir segja að ég gæti hvílt hana meira og það er alveg rétt en hún er lykilleikmaður og er að gera það sem hún elskar og að hjálpa liðinu,“ sagði Jóhann að lokum.