Aldrei fengið svona útreið

Pablo Punyed í baráttu við Joshua Honohan á Víkingsvellinum í …
Pablo Punyed í baráttu við Joshua Honohan á Víkingsvellinum í kvöld. mbl.is/Arnþór

„Það fer eftir seinni leiknum hvort við séum svekktir eða ekki,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, í samtali við mbl.is eftir markalaust jafntefli við Shamrock Rovers frá Írlandi í fyrri leik liðanna í 1. umferð Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvöld.

Víkingar voru mun meira með boltann og sóttu nánast allan leikinn, en írska liðið varðist vel og voru opin færi Víkinga af skornum skammti.

„Það er erfitt að spila á móti svona lágvörn, það sést á öllum sviðum heimsfótboltans. Við fengum færi en það var langt á milli þeirra. Ég missti töluna á öllum hornunum sem við fengum í leiknum.

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Þetta lið hefur ekki sýnt svona leik áður því þetta er lið sem keyrir yfir lið heima fyrir og pressar stíft. Við náðum að þrýsta þá niður. Þeir fengu hins vegar besta færi leiksins. Það sýnir hvað það er mjótt á milli. Frammistaðan var góð og það er erfitt að vera ósáttur við nokkurn skapaðan hlut, fyrir utan að við skoruðum ekki,“ sagði Arnar og hélt áfram:

„Þetta lið er vel skipulagt í Evrópu og kann leikinn upp á tíu. Það er ekki þeirra að keyra upp hraðan. Það er frekar dómaranna að ýta í þá. Það er ekkert við Írana að sakast, við hefðum örugglega gert nákvæmlega það sama ef við værum að spila útileikinn fyrst.

Við gerðum eins vel og við gátum og áttum góð augnablik. Þetta lið hefur aldrei fengið svona útreið hvað varðar pressu og að vera mikið með boltann. Þeir gerðu vel í að sleppa lifandi frá þessu,“ sagði hann.

Arnar Gunnlaugsson.
Arnar Gunnlaugsson. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki

Arnar var ósáttur við hve litlu norskur dómari leiksins bætti við fyrri hálfleikinn, þar sem leikmenn Shamrock töfðu duglega.

„Þeir tóku auka hálfleik þegar markvörðurinn fór niður. Það trix er orðið þreyttasta trixið í fótboltanum. Hann átti að bæta fimm mínútum við bara fyrir það. Heilt yfir gerði hann þetta samt ágætlega.“

Arnar á von á öðruvísi seinni leik í Dublin. „Það verður allt annar leikur, því þeir munu aldrei spila svona á heimavelli. Þeir koma út, pressa og verða með læti. Við þurfum að sýna sömu klókindi og þeir gerðu í þessum leik og finna leið til að komast áfram,“ sagði Arnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert