Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara Víkings úr Reykjavík, býst við gríðarlegum stuðningi í kvöld þegar lið hans mætir Shamrock Rovers frá Írlandi í kvöld.
Liðin mætast í fyrri leik 1. umferðar undankeppni Meistaradeildarinnar í Víkinni. Uppselt er á leikinn og Arnar vonast eftir góðum stuðningi.
„Nú er tímabil fyrir alla til að stíga upp. Leikmenn, ég, þjálfarateymið og svo stuðningsmenn líka. Við verðum að vera meðvitaðir um hvað er að gerast.
Við erum á toppnum, komnir í bikarúrslit og nú er Meistaradeildin. Ef þú vilt ekki taka þátt í þessu ævintýri þá er eitthvað mikið að.
Ég hef enga trú á öðru en að þeir muni leiða okkur í gegnum erfiðasta hjallann á morgun sem verður þegar við þurfum að þjást, sem mun gerast á morgun. Við þurfum að virða það að þetta er Meistaradeildin og þá má enginn gera neina vitleysu.
Stuðningsmennirnir verða mjög mikilvægir í að minna okkur á hvað er í gangi í leiknum á morgun,“ sagði Arnar í samtali við mbl.is.
„Við verðum að sýna Shamrock mikla virðingu. Við erum sigurstranglegri, það er engin spurning.
Þeir voru samt kannski að vanmeta Blikana eitthvað í fyrra. Maður veit ekki hvað er í gangi í hausnum á þessum liðum.
Ég veit ekki hvort að Blikaleikurinn hjálpi okkur. Þeir eru reyndar með sama þjálfara og spila sama kerfi. En hugarfar leikmanna verður sennilega allt öðruvísi en í fyrra.
Þetta er Meistaradeild. Við þurfum að eiga toppleik innan- sem utanvallar til að komast áfram,“ bætti Arnar við.
„Mér finnst eins og Evrópuárangur íslenskra liða sé bara að verða betri og betri. Árangur okkar hefur verið frábær. Þótt við höfum ekki komist oft áfram þá höfum við sýnt góða frammistöðu og fengið góð úrslit úr ákveðnum leikjum.
Sem dæmi er árangur okkar á heimavelli magnaður. Höfum unnið fimm leiki af sex og sá sjötti var jafntefli gegn Malmö.“