Írinn heiðarlegur: Þetta var leikaraskapur

Leikmenn Shamrock Rovers áttu í vök að verjast á Víkingsvellinum …
Leikmenn Shamrock Rovers áttu í vök að verjast á Víkingsvellinum í kvöld. mbl.is/Arnþór

Stephen Bradley, þjálfari írska liðsins Shamrock Rovers, var svekktur og sáttur á sama tíma eftir markalaust jafntefli síns liðs gegn Víkingi í fyrri leik liðanna í Meistaradeild Evrópu í fótbolta á Víkingsvelli í kvöld.

Víkingar voru mun meira með boltann og sóttu meira, en gestirnir frá Írlandi fengu tvö góð færi til að stela sigrinum.

„Ég er bæði svekktur og sáttur því við fengum tvö bestu færin til að vinna leikinn. Við erum ánægðir með að fara með jafntefli til Dublin en á sama tíma finnst okkur eins og við hefðum átt að vinna.

Þetta var góð frammistaða en öðruvísi frammistaða en venjulega. Við vorum agaðir og héldum skipulagi vel. Við áttum tvö bestu færin og við erum sáttir við frammistöðuna.

Stephen Bradley.
Stephen Bradley. AFP

Við breyttum um leikaðferð því þetta er á útivelli í Evrópu og þeir eru góðir á þessum velli. Þeir eru vanari því að spila á þessum velli og því breyttum við um aðferð. Leikurinn í Dublin verður öðruvísi,“ sagði hann við mbl.is. eftir leik.

Darragh Nugent fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á 80. mínútu er hann gerði sig sekan um leikaraskap. „Þetta var leikaraskapur og ég get ekki kvartað yfir þeim dómi,“ viðurkenndi írski þjálfarinn, sem er ánægður með varnarleik sinna manna í kvöld.

„Víkingarnir eru góðir í því sem þeir gera og það er augljóst hvað þeir reyna í sínum sóknarleik. Ef þú nærð að stöðva það getur þú slökkt á þeim. Við gerðum það vel í kvöld,“ sagði Bradley.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert