Gaman þegar það er pressa

Selma Sól Magnúsdóttir fyrir landsliðsæfingu í dag.
Selma Sól Magnúsdóttir fyrir landsliðsæfingu í dag. Ljósmynd/mbl.is

„Maður er í þessu fyrir þessa leiki,“ sagði landsliðskonan Selma Sól Magnúsdóttir um leikina framundan með íslenska landsliðinu í undankeppni EM í fótbolta.

Ísland mætir Þýskalandi á föstudaginn á Laugardalsvelli og Selma veit alveg hvað þarf að gera til að vinna sterkt lið Þjóðverja.

„Við þurfum að vera þéttar varnarlega og beita okkar hröðu leikmönnum fram á við og reyna að skora eitt eða tvö mörk og koma í veg fyrir að þær skori. 

Ég held að við klárlega vitum við hverju við eigum að búast og það hundrað prósent hjálpar okkur inn í leikinn og við tökum það allt með okkur og nýtum það sem við höfum lært í fyrri leikjum,“ sagði Selma í viðtali við mbl.is í dag.

Það er mikið undir í þessum landsleikjaglugga en þrjú stig geta tryggt þeim sæti á EM.

„Þetta er mjög spennandi og gaman því það er gaman þegar það er pressa. Ég held við séum bara nokkuð rólegar yfir þessu og sjáum hvað kemur.“

Selma er án félags og nóg um að vera hjá umboðsmanni hennar en ekkert sem hún vill deila ennþá.

„Já, já það er fullt í gangi og maður verður bara að bíða og sjá.“

Viltu deila því hvaða lið það eru eða í hvaða landi þau lið sem þú ert með á borðinu eru frá?

„Nei, nei,“ sagði Selma, stútfull af leyndarmálum.

Samningur Selmu var að renna út en hún var hjá  Nürn­berg sem náði ekki að bjarga sér frá falli í þýsku úrvalsdeildinni en Selma er vön því að vera í toppbaráttu.

„Þetta var tilbreyting og skrítið að gera eitthvað annað. Ég lærði rosalega mikið og tek margt út úr þessari reynslu og með mér inn í næsta verkefni sem ég fer í.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert