Já, vatn, það er ekkert annað í boði

Alexandra Jóhannsdóttir að fagna þriðja marki Íslands.
Alexandra Jóhannsdóttir að fagna þriðja marki Íslands. mbl.is/Arnþór

„Þetta spilaðist eiginlega akkúrat eins og við bjuggumst við,“ sagði Alexandra Jóhannsdóttir, leikmaður íslenska landsliðsins í fótbolta sem vann Þýskaland 3:0 og tryggði sér sæti á EM. 

„Þær voru meira með boltann og við nýttum skyndisóknir og við gerðum það vel í dag. Mér fannst þetta eiginlega bara fullkomið, þær sköpuðu ekki mikið þegar þær voru með boltann,“ sagði Alexandra í viðtali við mbl.is eftir leikinn.

Alexandra skoraði úr glæsilegu skoti af 25 metra færi eftir að Sveindís Jane náði boltanum á undan markverðinum og sendi til hennar.

„Sveindís gerði þetta bara ógeðslega vel og það var mjög sætt að sjá hann í netinu.“

Alexandra tók langskot sem var ekki langt frá því að fara inn í seinni hálfleik.

„Hann hefði mátt fara inn líka sá! Ég sá að hún var komin smá út úr markinu og ég ákvað að láta á hana reyna, það hefði verið fínt að sjá hann inni líka.“

Hvernig á að fagna?

„Þær eru að dansa og syngja inni í klefa með eitthvað vatn“

Vatn?

„Já vatn, það er ekkert annað í boði, svo er bara nudd og pottur upp á hóteli í kvöld og bara gera sig til í næsta leik,“ sagði Alexandra en Ísland mætir Póllandi á þriðjudaginn í lokaumferð riðlakeppninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert