Verðum að bera virðingu fyrir þessu verkefni

Danijel Dejan Djuric í eldlínunni gegn Shamrock.
Danijel Dejan Djuric í eldlínunni gegn Shamrock. mbl.is/Arnþór

Íslands- og bikarmeistarar Víkings úr Reykjavík mæta írska liðinu Shamrock Rovers í seinni leik liðanna í 1. umferð Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í Dublin annað kvöld. Liðin gerðu markalaust jafntefli í fyrri leiknum á Víkingsvelli fyrir viku síðan, þrátt fyrir að Víkingur hafi verið töluvert sterkari aðilinn.

„Ferðalagið gekk mjög vel. Við komum á sunnudaginn og erum á fínu hóteli. Það er búið að gera vel við okkur. Við tókum æfingu á vellinum áðan og þetta er virkilega góður völlur. Það er búist við 7-8 þúsund manns. Það koma um 100 manns frá okkur og þeir láta væntanlega vel í sér heyra,“ sagði Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings í samtali við mbl.is í kvöld.

Allir leikmenn Víkings eru klárir í slaginn að undanskildum Davíð Erni Atlasyni sem er að glíma við meiðsli. Aron Elís Þrándarson lék ekki fyrri leikinn en hann ætti að geta spilað eitthvað á morgun.

Ekki séð þá spila svona

Víkingar voru með öll tök á vellinum í fyrri leiknum gegn mjög varnarsinnuðu írsku liði. Shamrock-liðið spilaði töluvert öðruvísi í einvígi sínu gegn Breiðabliki í sömu keppni fyrir ári síðan.

„Þetta var virkilega góð frammistaða á Víkingsvelli og okkur tókst bara ekki að koma markinu á þá. Ég hef ekki séð þá spila svona varnarsinnað eins og á móti okkur. Þeir spiluðu allt öðruvísi í báðum leikjum gegn Breiðabliki í fyrra.

Arnar Gunnlaugsson
Arnar Gunnlaugsson Ljósmynd/Kristinn Steinn

Kannski er það af virðingu við okkur og kannski ætluðu þeir að gera þetta eitthvað öðruvísi. Stundum kemur það fyrir að annað liðið tekur yfir, eins og við gerðum í þessum leik. Á morgun fara þeir væntanlega í sinn bolta sem fólk sá á móti Breiðabliki í fyrra.

Þeir pressa yfirleitt framarlega og reyna að vinna boltann strax. Það gæti búið til pláss fyrir okkur. Það verða til tækifæri en við verðum að bera virðingu fyrir þessu verkefni. Við erum á útivelli í Meistaradeildinni. Við ætlum ekki í neina vitleysu,“ sagði Arnar og hélt áfram:

„Það yrði risastórt að fara áfram. Blikarnir fengu leiki við FC Kaupmannahöfn í verðlaun í fyrra og ef við vinnum mætum við Spörtu Prag. Það væri stórt fyrir félagið fjárhagslega og okkar leikmenn að komast á næsta þrep. Þetta er gulrót sem við stefnum að,“ sagði Arnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert