Hefði geta farið 10:10

Jóhannes Karl Sigursteinsson, þjálfari Stjörnunnar.
Jóhannes Karl Sigursteinsson, þjálfari Stjörnunnar. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Jóhannes Karl Sigursteinsson, þjálfari Stjörnunnar, var brattur er hann mætti í viðtal til mbl.is eftir 2:1 sigur liðsins gegn FH í 14. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í Kaplakrika í dag.

„Ég er mjög sáttur. Heilt yfir opinn fótboltaleikur sem gat farið á hvaða vegu sem er. Mér fannst sterkt hjá okkur að klára þetta. Við þurftum einstaklingsgæði til að gera það. Það var hugur í stelpunum,“ sagði Jóhannes í viðtali við mbl.is

Stjarnan náði að hreppa sigurinn á annarri mínútu í uppbótartíma en Andrea Mist Pálsdóttir skoraði mark liðsins.

„Þetta var þannig leikur að það hlaut að koma mark í hann. Leikurinn hefði nánast geta farið 10:10 þetta var alveg opið í báða enda. Þegar bæði lið eru að reyna að sækja sigurmarkið, enginn að bíða eftir jafntefli, þá þarf að keyra á þetta allan tímann,“

Þetta var fjórði leikur Jóhannesar við stjórnartaumana hjá Stjörnunni en hann hefur unnið tvo leiki, gert eitt jafntefli og tapað einum.  

„Stelpurnar eiga hrós skilið fyrir hvernig þær hafa stigið upp og komið inn í þetta. Heilt yfir hef ég verið sáttur við þróun mála en þetta var hins vegar ekki besti leikurinn síðan ég kom.

Mér fannst vanta ýmislegt í dag en við tókum þrjú stig. Það er kannski meira hugarfarið og viljinn heldur en frábær stjórn á leiknum eða taktík hjá okkur,“ sagði Jóhannes.

Jessica Ayers spilaði sinn fyrsta leik fyrir Stjörnuna í dag en hún skrifaði undir hjá liðinu á dögunum. Ayers fyllir stórt skarð á miðjunni sem Caitlin Cosme skildi eftir sig er hún gekk í raðir Nantes á dögunum. Jóhannes var sáttur með hennar frammistöðu í dag.

„Hún er mjög skapandi leikmaður og sterk á bolta þannig hún á eftir að nýtast okkur vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert