Oliver hetjan í Þjóðhátíðarleiknum

Oliver Heiðarsson skoraði bæði mörk Eyjamanna.
Oliver Heiðarsson skoraði bæði mörk Eyjamanna. mbl.is/Óttar Geirsson

Eyjamenn styrktu stöðu sína í öðru sæti 1. deildar karla í knattspyrnu, í dag með því að sigra Njarðvíkinga, 2:1, í toppslag frammi fyrir fjölda áhorfenda á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í dag.

ÍBV er þar með komið með 28 stig í öðru sæti deildarinnar og er fjórum stigum á eftir toppliði Fjölnis. Njarðvíkingar eru áfram með 25 stig í þriðja sætinu en liðin voru jöfn fyrir leikinn. Keflavík er svo í fjórða sætinu með 24 stig.

Þetta var síðasti leikurinn í 15. umferð deildarinnar en að hefðbundnum 22 umferðum loknum er efsta liðið komið upp í Bestu deildina en næstu fjögur lið fara í umspil um að komast einnig upp.

Kaj Leo i Bartalstovu kom Njarðvík yfir um miðjan fyrri hálfleik með fallegu skoti fyrir utan vítateig.

Oliver Heiðarsson jafnaði metin fyrir ÍBV á 79. mínútu með skalla eftir hornspyrnu frá Vicente Valor, 1:1.

Þegar komið var fram í uppbótartíma nýtti Oliver sér slæm mistök í útsparki hjá Aroni Snæ Friðrikssyni, markverði Njarðvíkinga, og skoraði sigurmarkið með skoti af löngu færi, 2:1.

Eyjamaðurinn Gunnar Heiðar Þorvaldsson þjálfar Njarðvíkinga en hann missti af því að stjórna liðinu af varamannabekknum á sínum gamla heimavelli því hann þurfti að taka út leikbann vegna rauðs spjalds í síðasta leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert