Þrjú mörk á 11 mínútum gáfu góð fyrirheit þegar Víkingar sóttu FH í Hafnarfjörðinn í kvöld í efstu deild karla í fótbolta, síðan var mikið um spretti og menn lögðu sig virkilega fram en það voru Víkingar, sem áttu síðasta orðið í 3:2 sigri enda sóttu þeir grimmt eftir hlé.
Víkingur jók því forskot sitt í deildinni í níu stig, er með 39 stig en Breiðablik er með 30 og Valur 28 og eiga bæði tvo leiki til góða. FH er í fjórða sæti með 28 stig.
Hafnfirðingarnir byrjuðu með látum og ætluðu sér að sækja stíft en Víkingar stóðu það af sér og á 3. mínútu kom Helgi Guðjónsson gestunum í 1:0 forystu þegar hann afgreiddi góða fyrirgjöf Ara Sigurpálssonar frá vinstri kanti með skoti beint í hægra hornið. Ákaflega snyrtilegt og staðan 1:0 fyrir Víkinga.
Víkingar urðu að gera breytingar á uppstillingu sinni á 5. mínútu þegar Gunnar Vatnhamar varnarmaður meiddist og varð að fara útaf en Jón Guðni Fjóluson tók við af honum.
FH-ingar voru enn ákveðnir í að ráða leiknum og á 8. mínútu, fimm mínútum á eftir marki Víkinga, fékk Kjartan Kári Halldórsson boltann skammt frá miðjunni. Hann smeygði sér í framhjá Víkingum eins og hann væri í svigkeppni en rétt kominn inn í vítateig vinstra megin skaut hann í hægra hornið, svo létt eitthvað. Staðan 1:1.
Aðeins mínútu síðar varði Ingvar markmaður Víkinga hörkuskot Loga Hrafn Róbertssonar úr vítateig í horn. Flott hjá báðum.
Eins og þetta væri ekki nógu mikil spenna þá braust Björn Daníel Sverrisson fyrirliði FH á 11. mínútu með boltann upp að endalínu hægra megin nokkra metra frá stönginni en náði samt að þruma yfir Ingvar í markinu. Staðan 2:1 fyrir FH.
Þó FH væri ákveðnari að sækja stífar en gestir þeirra tókst Hafnfirðingum ekki nóg vel að búa til fleiri færi.
Hinu megin skallaði Aron Elís Þrándarson boltann að marki FH á 20. mínútu eftir hornspyrnu en Sindri Kristinn markmaður FH var vel á verði og greip boltann.
Mínútu síðar fékk Helgi aftur færi á svipuðum stað með hægra markteigshornið eftir góða sókn Víkinga en skotið, sem átti greinilega að fara rétt fyrir innan vinstri stöngina fór hins vegar aðeins fyrir utan hana.
Víkingar héldu boltanum í byrjun síðari hálfleiks en fengu lítið rými og pláss til að byggja upp góðar sóknir því FH-ingar leyfðu það ekki og voru svo alveg tilbúnir til að sækja þegar þeir náðu boltanum.
Víkingur fékk þó gott færi á 50. minútu þegar Ari fékk sendingu í gegnum vörn FH og náði skoti í miðjum vítateig en Sindri Kristinn markmaður FH var kominn út á móti og verði vel.
Víkingar voru síðan nálægt því að skora á 56. mínútu þegar aukaspyrna Danijel nokkrum metrum fyrir utan vítateig kom að markinu alveg út við stöng en Sindri varði glæsilega í horn.
Svo kom að marki og það var Víkinga. Þá fékk Sveinn Gísli Þorkelsson boltann á vinstri kanti og gaf fyrir inn að miðri markteigslínu, þar sem Valdimar Þór Ingimundarson kom á ferðinni og þrumaði vinstra megin í markið. Þess má geta að þeir komu inná mínútu áður. Staðan jöfn, 2:2.
Jöfnunarmarkið virtist draga aðeins úr Hafnfirðingum enda bættu Víkingar í með hraðari og einbeittari sóknarleik. Svo skilaði sókn sér aftur á 80. mínútu þegar Valdimar Þór fékk sendingu frá vinstri kanti yfir á þann hægri, þar sem hann afgreiddi boltann af öryggi í netið. Staðan 3:2 fyrir Víking.
Á síðustu mínútu uppbótartíma fékk FH horn, boltinn þvældist manna og liða inni í markteig, menn köstuðu sér hver um annan þveran en markið kom ekki.
Næstu leikir liðanna – þá fer FH í Vesturbæinn og mætir KR en Víkingar fá Flora Tallinn í heimsókn í Víkina á fimmtudaginn, svo Vestra í heimsókn í Víkina á sunnudaginn, rétt áður en haldið er til Eistlands. Það er því strembið prógramm hjá Víkingum.