Fram barðist þar til yfir lauk og fékk 3 stig að launum

Stjörnumaðurinn Haukur Örn Brink eltir Framarann Harald Einar Ásgrímsson.
Stjörnumaðurinn Haukur Örn Brink eltir Framarann Harald Einar Ásgrímsson. mbl.is/Eyþór Árnason

Lengi vel mátti búast við markalausu jafntefli þegar Stjarnan sótti Fram heim í Úlfarsárdalinn í kvöld er leikið var í 17. umferð efstu deildar karla í fótbolta en svo birti til í síðari hálfleik, sóknir urðu beittari.

Þó Framarar væru nokkurn veginn búnir að ná undirtökunum urðu þeir að sætta sig við að Garðbæingar jöfnuðu en varamaðurinn Magnús Þórðarson náði að tryggja þeim 2:1 sigur í blálokin. 

Með sigrinum fór fram upp fyrir ÍA og í 5. sætið með 26 stig en Stjarnan situr áfram í sjöunda sætinu með 23 stig.

Mesta púðrið fram eftir leik fór í að reyna ná völdum en bæði lið áttu þó sæmilegar sóknir þó opna dauðafærið léti bíða eftir sér enda skorti eiginlega allt bit í sóknirnar, vantaði almennilega græðgi í mark.

Á 24. mínútu kom fyrsta alvöru færið þegar Fred Saraiva hristi Daníel Laxdal varnarmann Stjörnunnar af sér rétt utan við vinstra vítateigshornið og rakti boltann að markinu, reyndi skot einn á móti Árna Snæ markmanni Stjörnunnar en hann sá við honum og varði vel.

Nokkrum mínútum síðar varð Framarinn Tiago Fernandes fyrir einhverju hnjaski og var skipt útaf fyrir Frey Sigurðsson en fram að því hafði Tiago verið nokkuð góður.

Hitt góða færið fyrir hlé fékk svo Djenario Daniels, glænýr leikmaður Fram, á 41. mínútu þegar hann reyndi hnitmiðað skot frá vítateigslínunni en Árni Snær í marki Stjörnunnar skutlaði sér og varði í horn.

Fyrsta góða færið í seinni hálfleik kom á 50. mínútu var Framara þegar aukaspyrna Haraldar Einars Ásgrímssonar frá hægri kanti kom niður rétt við markteigslínuna og varnarmaður Fram Kyle McLagan ætlaði að skalla boltanum aftur fyrir sig í vinstra hornið en Árni Snær markmaður Garðbæinga var snöggur niður til að verja.

Sóknir Fram voru að verða beittari en Stjörnumenn voru líka til og á 58. mínútu átti Helgi Fróði Ingason gott skot rétt yfir eftir góða forvinnu Emils Atlasonar.

Svo kom mark þegar Már Ægisson skaust upp hægri kantinn á 60. mínútu og við endalínuna náði hann að gefa yfir markið þar sem Djenario kom á fullri ferð og skallaði í hægra hornið áður en Árni Snær komst í boltann.  Staðan 1:0 og mikið klappað fyrir Portúgalanum, sem er nýgengin í raðir Fram.

Markið og nokkur vænleg færi virtust hleypa lífi í heimamenn, sem gerðust ákveðnari í sóknum sínum og gestirnir úr Garðabænum þurftu að bakka.  Framarar fóru að færa sig framar en þurftu svo að súpa seyðið af því.

Á 73. mínútu skutust Garðbæingar í sókn og rétt kominn inn í vítateiginn vinstra megin var Róbert Frosti Þorkelsson með boltann, gaf síðan aðeins til vinstri á Örvar Eggertsson, sem lagði boltann fyrir sig og skaut upp í hægra hornið.  Staðan jöfn, 1:1.

Fjör færðist í leikinn eftir jöfnunarmarkið, mikið um hlaup og brot því bæði liðin voru búnir að átta sig á að það var mögulegt að hirða öll stigin.  Hinsvegar var meira um baráttu en minna um að byggja upp góðar sóknir, þó ekki hafi vantað viljann og oft vantaði herslumuninn.

Svo kom þessi herslumunur á 90. mínútu þegar boltanum var rennt inní teig úr aukaspyrnu, menn snerust um boltann þar til Magnús Þórðarson tók af skarið og skaut alveg út við vinstri stöngina hægra megin úr teignum.  Staðan 2:1 og 5 mínútum bætt við.

Í næstu umferð fá Stjörnumenn granna síðan í Breiðablik í heimsókn á meðan Fram sækir Skagamenn heim.

Fram 2:1 Stjarnan opna loka
90. mín. Adam Örn Arnarson (Fram) kemur inn á
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert