KA vann virkilega góðan sigur á Val á Greifavellinum á Akureyri í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld, 1:0. Þetta var fyrsti leikur Srdjan Tufegdzic sem þjálfari Vals, gegn hans gamla liði en hann er fyrrverandi leikmaður og þjálfari KA.
KA-menn byrjuðu leikinn af krafti og fengu tvö góð færi snemma leiks. Fyrst fékk Daníel Hafsteinsson gott færi af stuttu færi strax á 2. mínútu en Frederik Schram varði vel frá honum. Skömmu síðar átti svo Hans Viktor Guðmundsson skalla framhjá markinu.
Þá tóku Valsmenn við sér og fóru að halda betur í boltann. Tvisvar með skömmu millibili gerðist það að þeir fengu tvö hörkufæri í sömu sókninni en í fyrra skiptið átti Tryggvi Hrafn Haraldsson skot vinstra megin úr teignum sem Steinþór Már Auðunsson varði beint fyrir fætur Jónatans Inga Jónssonar. Steinþór lá ennþá þegar boltinn barst á Jónatan en hann skóflaði boltanum hátt yfir markið af stuttu færi.
Skömmu síðar átti Gylfi Þór Sigurðsson frábæra sendingu upp hægri kantinn á Jónatan. Hann lagði boltann fyrir markið á Tryggva sem átti skot í Ívar Örn Árnason, varnarmann KA. Af honum barst boltinn á Bjarna Mark Antonsson í D-boganum en Steinþór Már varði mjög fast skot hans vel.
Eftir þetta fór leikurinn í meira jafnvægi og fátt var um færi. Þegar klukkan sló í 45 mínútur komust heimamenn hins vegar yfir en þar var að verki Viðar Örn Kjartansson með mark í öðrum leiknum í röð. Daníel Hafsteinsson átti þá mislukkað skot utan teigs sem varð að þessari fínu sendingu á Viðar, sem stýrði boltanum af yfirvegun í netið. Það voru því heimamenn sem leiddu með einu marki þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik.
Eftir rúmlega klukkutíma leik slapp Viðar Örn inn fyrir vörn Vals. Viðar var mjög líflegur en skömmu áður hafði hann skorað mark sem var réttilega dæmt af vegna rangstöðu. Í þetta skiptið var hann hins vegar réttstæður og potaði boltanum framhjá Frederik Schram rétt utan teigs, sem var of seinn í úthlaupið og klippti Viðar niður. Aukaspyrna dæmd og Frederik réttilega sendur af velli.
Inná í stað Frederiks kom Ögmundur Kristinsson en þetta voru hans fyrstu mínútur eftir komuna í Val. Ögmundur var sóttur í sumar en Frederik er á förum frá Val, og er því hreinlega spurning hvort hann hafi spilað sinn síðasta leik fyrir Val.
Hallgrímur Mar tók aukaspyrnuna eftir rauða spjaldið og smellti boltanum í þverslánna. Spyrnan var virkilega góð, í markmannshornið og virtist Ögmundur sigraður, en sem betur fer fyrir gestina small boltinn í slánni og yfir.
Eftir rauða spjaldið voru það 10 Valsmenn sem voru meira með boltann en þeim gekk þó mjög illa að skapa sér færi. Heimamenn vörðust af mikilli skynsemi og gáfu svo gott sem engin færi á sér. Það fór svo að lokum að KA-menn unnu virkilega góðan sigur, 1:0.
Með sigrinum stimplar KA sig rækilega inn í baráttuna um efri hluta deildarinnar. Liðið er nú 22 stig, tveimur stigum á eftir ÍA sem er í sjötta sætinu. Valur er áfram í þriðja sæti deildarinnar með 28 stig, 11 stigum á eftir toppliði Víkings.
M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.