Einfalt svar: „Nei“

Jón Þór Hauksson.
Jón Þór Hauksson. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, var svekktur eftir jafntefli gegn Vestra, 0:0, í 17. umferð Bestu deildarinnar í fótbolta í kvöld. 

ÍA er í sjötta sæti með 25 stig eftir leikinn og búið að missa Fram fram úr sér. 

Fyrstu viðbrögð eftir leik?

„Þetta var náttúrlega ótrúlegt að þetta endaði sem markalaust jafntefli. Ég er bara drullusvekktur að hafa ekki farið með þrjú stig héðan,“ sagði Jón Þór í samtali við mbl.is.

Þið byrjið betur og eigið tvö góð færi i fyrri hálfleik og byrjið síðan seinni hálfleik. Síðan fjarar dálítið undan þessu, hvað finnst þér?

„Já sammála því en mér leið eins og við værum með algjöra stjórn á því sem við vorum að gera fram að 75. mínútu.

Síðan fannst mér við losna alltof mikið upp og opnuðum fyrir skyndisóknir, stóðum vitlausu megin við menn. En fram að því leið mér eins og við hefðum algjöra stjórn á því sem við vorum að gera. Og klaufar að vera ekki komnir yfir á þeim tímapunkti.“

Haukur Andri Haraldsson kom vel inn í dag, líst þér ekki vel að fá hann inn?

„Jú, Haukur kom vel inn og við vitum hvað hann getur. Frábært að fá hann aftur í skagatreyjuna.“

Koma fleiri leikmenn?

„Nei,“ sagði Jón Þór einfaldlega að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert