Gríðarlega stoltur af liðinu

Davíð Smári Lamude.
Davíð Smári Lamude. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, var með blendnar tilfinningar eftir markalaust jafntefli sinna manna gegn ÍA í 17. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í kvöld. 

Vestri fór úr neðsta sæti í það næstneðsta og er nú með 13 stig.

Fyrstu viðbrögð?

„Blendnar tilfinningar, gríðarlega ósáttur að fá ekki þrjú stig en gríðarlega stoltur af liðinu,“ sagði Davíð Smári við mbl.is beint eftir leik. 

Þetta var besti leikur liðisins í langan tíma og heilsteypt frammistaða en boltinn ætlaði bara ekki inn. Hvað finnst þér um það?

„Já, mér fannst við skapa fullt af góðum færum, eiga að fá víti. Mér fannst við smá ragir í fyrri hálfleik að þora að spila upp miðjuna hjá okkur, en það lagaðist i seinni hálfleik.

Við bjuggum okkur til góðar stöður, fengum góð færi en boltinn vildi ekki inn. Gríðarlega stoltur af liðinu, liðin að berjast á sitthvorum staðnum í töflunni en það sást ekki í dag. Ef eitthvað var fannst mér við töluvert sterkari í dag sérstaklega undir lok leiks.“

Nú er glugginn opinn og hópurinn er orðinn þunnur, t.d. bekkurinn í dag er með sex varnarmenn og ungan varamarkmann. Á að sækja fleiri leikmenn?

„Í fyrsta lagi langar mig að hrósa Patrik Duda sem var varamarkvörður í dag. Hann er 16 ára í þriðja flokki og var alveg óhræddur að stíga upp og var þakklátur fyrir tækifærið, þetta eru nákvæmlega karakterarnir sem við þurfum.

Við erum svo búnir að sækja markmann sem kemur á morgun, Benjamin Schubert, sem leysir Svein Sigurð af. Mér finnst hópurinn geggjaður en hann er klárlega þunnur. Það vantar leikmenn í hópinn, það er klárt. En í leiknum í dag fannst mér sem dæmi Gunnar Jónas, Fatai stórkostlegir eins og flestir leikmenn Vestra í dag. Balde var svo í banni og Tariq farinn. Hins vegar erum við að skoða markaðinn en ekkert fast í hendi sem stendur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert