Arnar: Ég sakna þeirra

Arnar Gunnlaugsson á hliðarlínunni í kvöld.
Arnar Gunnlaugsson á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

„Þetta er enn 50/50 einvígi,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings úr Reykjavík, í samtali við mbl.is eftir jafntefli sinna manna gegn Flora Tallinn frá Eistlandi, 1:1, í 3. umferð undankeppni Sambandsdeildarinnar í fótbolta á Víkingsvellinum í kvöld. 

Seinni leikurinn fer fram ytra eftir nákvæmlega viku en sigurliðið mætir UE Santa Coloma eða RFS Riga í úrslitaeinvígi um sæti í Sambandsdeildinni.

„Við erum enn þá lifandi. Við töpuðum ekki leiknum sem er gott. Heilt yfir áttum við fína frammistöðu. 

Við hefðum hins vegar mátt vera skarpari inni í teignum. Við fengum góða möguleika til að gera betur þar. 

Eins og alltaf í Evrópu munu dýr mistök kosta þig og það var smá hola sem við grófum okkur í. 

Við gerðum vel að jafna og koma til baka. Heilt yfir er þetta allt saman eitthvað til að byggja á fyrir seinni leikinn,“ sagði Arnar í samtali við mbl.is eftir leik. 

Sakna þeirra í svona stöðum

Arnar var án nokkurra lykilmanna en fyrirliðinn Nikolaj Hansen, Matthías Vilhjálmsson, Gunnar Vatnhamar og Pablo Punyed voru ekki með en Pablo er með slitið krossband. 

Víkingar voru endalaust að senda boltann fyrir og þar gekk brösuglega að skalla boltann á markið.

„Þegar lið eru að bjóða okkur upp á svona dans í fyrirgjöfum þá sakna ég auðvitað Matthíasar og Niko. Aron þrífst af Niko því að þeir taka plássið fyrir hvor annan. 

Við þurftum að spila aðeins öðruvísi, það var ekki svo mikil hætta í teignum. 

Hvað varðar ákefð og þess háttar voru mögulega þreytumerki á ferð. Menn eru á síðustu bensíndropunum. Menn sem hefðu getað hvílt aðeins gegn FH þurftu að spila þá.

Leikmennirnir gáfu allt í verkefnið og frammistaðan var fín.“

Bæði lið eru sterkari 

Arnar er sammála leikmanni sínum Karli Friðleifi Gunnarssyni að báðir mótherjar Víkinga hingað til í Evrópu, Shamrock Rovers frá Írlandi og Egnatia frá Albaníu, hafi verð sterkari en Flora Tallinn.

„Mín tilfinning er að bæði Shamrock og Egnatia séu sterkari lið. Þau eru með fleiri einstaklinga sem geta sært okkur.

Að sama skapi verðum við að mæta auðmjúkir til leiks í Eistlandi og átta okkur á að þetta er alvöru leikur þar sem allt er undir. Þetta er enn 50/50 einvígi.“

Þá segir Arnar að aðeins Gunnar Vatnhamar og Nikolaj Hansen eigi möguleika á að snúa aftur fyrir seinni leikinn. 

„Þessar ferðir eru frábærar. Það er gaman að fara út með strákunum. Gott að tapa ekki en slæmt að vinna ekki. Við förum út fullir sjálfstrausts. Við verðum að vera agaðir og ekki að reyna að skora tuttugu mörk í hverri sókn eins við vorum að gera í kvöld,“ bætti Arnar við spurður um seinni leikinn eftir viku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert