Víkingur úr Reykjavík og Flora Tallinn gerðu jafntefli, 1:1, í fyrri leik liðanna í 3. umferð undankeppni Sambandsdeildar karla í knattspyrnu í kvöld.
Seinni leikurinn fer fram í Tallinn eftir viku. Sigurvegari viðureignarinnar mætir tapliðinu af RFS Riga frá Lettlandi eða UE Santa Coloma í úrslitaeinvígi um sæti í Sambandsdeildinni.
RFS vann þann leik 2:0 á heimavelli Santa Coloma og þykir því líklegt að sigurvegari einvígsins mæti Santa Coloma.
Víkingar byrjuðu af krafti en gestunum frá Eistlandi tókst léttilega að búa til skyndisóknir.
Á 20. mínútu gerðist Jón Guðni Fjóluson sekur um mikil mistök. Þá sendi hann boltann til baka á Ingvar Jónsson en sendingin var of stutt. Mark Anders Lepik komst í boltann en rann. Ingvar fór þó aðeins í framherjann og Ashot Ghaltakchyan dómari benti á punktinn.
Á hann steig Lepik sjálfur og skoraði af öryggi, 0:1.
Valdimar Þór Ingimundarson jafnaði metin á 40. mínútu. Þá fékk hann boltann eftir að Aron Elís Þrándarson kom honum inn í teiginn. Þar fór hann af Valdimar sem var fljótur að bregðast við og stökk á boltann og potaði honum inn, 1:1.
Sergei Zenjoy fékk dauðafæri stuttu eftir mark Víkinga en Ingvar varð meistaralega.
Víkingar fengu þó nokkur góð færi í seinni hálfleik.
Viktor Örlygur Andrason átti gott skot sem að Evert Grünvald varði vel. Þá fékk Aron Elís gott færi eftir sendingu frá varamanninum Erlingi Agnarssyni.
Undir lok leiks varði síðan Grünvald meistaralega frá Erlingi. Nær komust Víkingar ekki og leiknum lauk með jafntefli.