Erla Karitas með þrennu – Selfoss enn í fallsæti

Erla Karitas Jóhannesdóttir skoraði þrennu fyrir ÍA í kvöld.
Erla Karitas Jóhannesdóttir skoraði þrennu fyrir ÍA í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

ÍA gerði góða ferð í Breiðholtið og lagði ÍR að velli, 3:2, í 1. deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Selfoss og HK skildu þá jöfn, 2:2, á Selfossi.

Með sigrinum fór ÍA upp í fjórða sætið þar sem liðið er með 22 stig, jafnmörg og Grótta og ÍBV í sætunum fyrir ofan en búið að spila einum leik meira.

ÍR er sem fyrr á botni deildarinnar með fimm stig.

Erla Karitas Jóhannesdóttir gerði sér lítið fyrir og skoraði öll þrjú mörk ÍA.

Sigríður Salka Ólafsdóttir og Dagný Rut Imsland skoruðu fyrir ÍR.

Rada bjargaði stigi

Selfoss er enn í níunda sæti deildarinnar, nú með 11 stig og þremur stigum frá öruggu sæti, eftir jafnteflið gegn HK í kvöld.

HK komst í 0:2 með mörkum frá Brookelynn Entz og Birnu Jóhannsdóttur.

Katrín Ágústsdóttir minnkaði muninn um miðjan síðari hálfleikinn áður en varamaðurinn Sonia Rada jafnaði metin á 90. mínútu, sex mínútum eftir að hún kom inn á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert