„Mér fannst við vera miklu betri,“ sagði Víkingurinn Karl Friðleifur Gunnarsson eftir jafntefli Víkinga gegn Flora Tallinn frá Eistlandi, 1:1, í fyrri leik liðanna í 3. umferð undankeppni Sambandsdeildarinnar í Víkinni í kvöld.
Seinni leikurinn fer fram ytra eftir nákvæmlega viku en sigurliðið mætir UE Santa Coloma eða RFS Riga í úrslitaeinvígi um sæti í Sambandsdeildinni.
„Ég er svekktur að við förum ekki með fleiri mörk út til Eistlands en við erum miklu betra lið og tökum þá úti,“ sagði Karl Friðleifur í samtali við mbl.is beint eftir leik.
Víkingur sigraði Egnatia frá Albaníu í 2. umferð en þá tapaði Víkingur fyrri leiknum heima, 1:0, og vann seinni úti, 2:0. Karli fannst albanska liðið betra.
„Mér fannst albanska liðið betra. Það var með meiri tækni. Við eigum bullandi séns og þurfum að taka okkur saman og fá sömu frammistöðu eins og í Albaníu.
Við mætum brattir út. Við vorum þannig séð með þennan leik en verðum að nýta færin sem við erum að fá.
Við förum yfir það og klárum þetta úti.“
Hvað getið þið bætt fyrir næsta leik?
„Við þurfum meiri hreyfingu í næsta leik. Færa okkur betur og spila meira í gegnum miðjuna. Þeir fóru vel í gegnum okkur og vita að við erum sterkir á köntunum.
Fyrsti leikurinn er alltaf erfiður. Þá veit maður ekki hvað bíður. Nú þekkjum við leikmennina og vitum hvað við erum að fara út í.“
Að fara út til Eistlands er allt annað dæmi en að spila heima í Víkinni. Víkingar eru hins vegar öllu vanir og telur Karl stóra velli ytra skipta engu máli.
„Það var ekkert mál út í Albaníu. Það skiptir engu máli. Svo er gott að fá grasleik. Við erum búnir að spila vel á grasi, bæði í Albaníu og gegn FH. Við erum ekkert hræddir og förum sprækir út.
Við erum í bullandi séns að komast alla leið. Nú er tími til að fara út og klára þetta,“ bætti kokhraustur Karl Friðleifur við.