Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings úr Reykjavík var rekinn af velli í jafntefli liðsins gegn Vestra, 1:1, í Bestu deild karla í knattspyrnu á Víkingsvellinum í dag.
Víkingar eru í efsta sæti deildarinnar með 40 stig en Breiðablik getur minnkað forskotið í eitt stig vinni liðið báða leikina sem það á inni.
Arnar varð fokillur þegar að Gunnar Jónas Hauksson jafnaði metin fyrir Vestra. Þá kastaði hann þjálfaramöppu sinni margoft í grasið fyrir framan fjórða dómara þar sem Víkingurinn Sveinn Gísli Þorkelsson lá sárþjáður eftir í aðdragandanum.
Vildi Arnar sem og Víkingar fá brot á það. Arnar kom í viðtal til mbl.is eftir leik en þá hafði hann talað við tvo aðra miðla fyrst.
Hvernig eru tilfinningarnar?
„Þær eru allt í lagi núna. Ég er búinn að koma svo mörgu frá mér, þú ert þriðji maðurinn sem ég tala við þannig ég hef róast aðeins niður.
Í kvöld held ég að þetta verði bara fínasta stig. Við vorum með laskað lið og þreyttar lappir í dag.“
Hvað gerðist þarna?
„Ég þoli ekki óréttlæti í íþróttum. Þetta var bara froða. Auðvitað gátum við komið í veg fyrir markið en það sem gerist í aðdragandanum var galið.
Þetta var líka uppsafnað, þrjú til fjögur atriði í seinni hálfleik. Eiður Aron átti að fá rautt spjald þegar að Valdimar var sloppinn einn í gegn. Menn bara sjá þetta ekki.
Svo fær Helgi gult spjald fyrir að hlaupa áfram með hendurnar, þetta er bara gagalagó.
Markið kemur líka í kjölfarið. Við eigum að fá aukaspyrnu og þeir bruna í sókn og skora. Ég læt vera að dómarinn hafa séð þetta en aðstoðardómarinn var bara aumur í þessu atviki, að sjá ekki brotið.“
Hefurðu eitthvað talað við dómarateymið eftir leik?
„Nei alls ekki. Til hvers? Þeir koma með einhverja froðu og allir eru vondir.
Dómararnir verða að fatta það að þeir eru í „elítufótbolta“ og verða að þola þessa gagnrýni og ekkert væl,“ sagði Arnar.
Aron Elís Þrándarson fór af velli í hálfleik. Þá þurftu Danijel Dejan Djuric og Erlingur Agnarsson einnig að fara af velli vegna örlítila meiðsla.
„Aron var bara orðinn mjög stífur, það er ekki langt síðan hann byrjaði að æfa aftur.
Nú var Danijel að kvarta undan meiðslum og svo snéri Erlingur aðeins á sér ökklann, við verðum að meta stöðuna á þeim.
Við þurfum að komast í gegnum þetta. Íslenskur fótbolti býður upp á þetta og við vissum það fyrir fram, áfram gakk.
Í kvöld verð ég sáttur við þetta stig. Við erum að berjast og berjast og eitt stig er betra en ekki neitt. “
Arnar býst við að Jón Guðni Fjóluson, Nikolaj Hansen og Gunnar Vatnhamar verði allir komnir aftur fyrir næsta leik. Þá verða Pablo Punyed, Matthías Vilhjálmsson og Halldór Smári Sigurðsson ekki með.
„Ég er mjög vongóður að Jón Guðni, Niko og Gunnar verði klárir í seinni leikinn. Pablo, Matti og Halli verða ekki með.“
Víkingur mætir Flora Tallinn ytra í seinni leik liðanna í þriðju umferð undankeppni Sambandsdeildarinnar næsta fimmtudag. Arnar segist spenntur fyrir þeim leik en staðan í einvíginu er 1:1.
„Það hjálpar til. Að einblína strax á það. Allt er opið, 50/50 einvígi ennþá. Ekkert sem að hræðir okkur.
Við förum þangað út og spilum okkar leik. Menn eru á þeim tímapunkti þar sem þeir eru þreyttir andlega og líkamlega. Þeir mega vera það í kvöld en svo er full einbeiting á morgun,“ bætti Arnar við í samtali við mbl.is.