„Okkur finnst kærkomið að landa sigrinum en svekkjandi að missa leikinn í eitt-eitt verandi einum fleiri, frekar klaufalegt af okkar hálfu en um leið og við komumst yfir í lok fyrri hálfleiks fannst mér aldrei spurning um þegar við komum út í seinni hálfleik hver myndi vinna,“ sagði Jónatan Ingi Jónsson, sem skoraði þrennu í 5:1 sigri á HK í kvöld þegar liðin mættust á Hlíðarenda í 17. umferð efstu deildar karla í fótbolta.
Jónatan Ingi sagði sína menn hafa stillt betur strengina eftir hlé. „Við hættum að reyna þessa erfiðu bolta, vissum að við vorum einum fleiri og þá þyrfti að hreyfa boltann hratt til að búa til færin og við erum með næg gæði í okkar liði til þess að klára færin, sem við fáum og við gerðum það vel í dag.“
Þess má geta að þetta er í annað skiptið sem kappinn skorar þrennu, hin kom fyrir nokkrum árum í Keflavík.
Leifur Andri Leifsson fyrirliði HK sagði erfitt að vera einum færri og fá sig mark á versta tíma en var líka ánægður með margt. „Við lendum í að missa mann snemma í fyrri hálfleik og þetta var erfitt en við gerðum virkilega vel í fyrri hálfleik þegar við héldum þeim þokkalega í skefjum en það var mjög þungt að fá á sig þetta mark í lok fyrri hálfleiks þegar nokkrar sekúndum voru eftir,“ sagði fyrirliðinn en að þriðja markið hefði slegið sína menn útaf laginu.
„Þriðja markið braut okkur svo aðeins en ég held að við getum verið stoltir af fullt af mínútum í þessum leik, fannst við gera vel á köflum og nú þurfum við bara að fara upp með hausinn, taka það sem var gott í þessum leik og það var hellingur,“ bætti Leifur Andri við.