„Þetta var virkilega góður leikur,“ sagði Jökull Elísabetarson þjálfari Stjörnunnar í samtali við mbl.is eftir jafntefli gegn Breiðabliki, 2:2, í 18. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í Garðabænum í dag.
Stjarnan lék vel og stóð í Blikaliðinu allan leikinn. Stjörnumenn eru í sjöunda sæti með 24 stig, fjórum stigum frá fjórða sætinu.
„Við vorum með mikla stjórn. Við bjuggumst við því að þeir yrðu mjög passívir í fyrri hálfleik, óvenju passívir.
Það hentar okkur fínt. Þegar að við njótum þess að spila fótbolta þá höfum við ekki áhyggjur af því að önnur lið pakki í vörn, þó að leikurinn verði ekki jafn skemmtilegur.
Síðan stigu Blikarnir upp í seinni hálfleik og þá var leikurinn frekar jafn. Ef ég tek þetta saman í 90 mínútur þá fannst mér við eiga skilið sigurinn.
En eins og seinni hálfleikurinn var þá er jafntefli sanngjarnt.
Ég er ótrúlega stoltur af liðinu og öllum hópnum í dag. Mikil orka í okkur,“ sagði Jökull eftir leik.
Eru þið með eitthvað markmið sem eftir er tímabils?
„Markmiðið er að skilja það sem búið er eftir. Við verðum að halda áfram. Í dag var það að hafa stjórn á leiknum og finnast skemmtilegt að spila. Mér fannst við ná því.“
Jökull viðurkennir að Stjarnan vilji fá leikmann inn fyrir lok gluggans á þriðjudaginn, hann hins vegar á erfitt að finna slíkan.
„Við erum að skoða hvort það sé einhver sem passi inn í hópinn. Það er ekki margt sem er laust sem okkur finnst henta í þennan hóp.“