„Ég er svekktur með frammistöðuna en ánægður að fara héðan með eitt stig,“ sagði Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, eftir 1:1 jafntefli sinna manna gegn Fylki í Bestu deild karla í Árbænum í dag.
„Við höfum verið á flottu skriði og við höfum ekki tapað í langan tíma. Er ánægður að fara héðan með eitt stig því frammistaðan var ekki nógu góð,“ sagði Hallgrímur í viðtali við mbl.is
Fylkir var sterkari aðilinn í byrjun leiks og voru KA-menn heppnir að fá ekki á sig mark í fyrri hálfleik.
„Við mætum ekki nógu grimmir til leiks. Við erum of passívir og við erum að pirra okkur á því að hlutirnir gangi ekki upp og því miður áttum við bara ekkert meira skilið.
Það er bara þannig í þessari deild, ef þú mætir ekki hundrað prósent þá vinnurðu ekki fótboltaleiki. Það er umhugsunarefni fyrir leikmennina og þjálfarana af hverju þetta gerist því þetta gerðist líka um daginn gegn KR.
Ég er með flotta stráka tilbúna á bekknum ef menn eru ekki tilbúnir að leggja sig nóg fram. En þegar það er sagt þá er jákvætt að fá stig héðan en svekkjandi að missa þetta niður eftir að komast yfir,“ sagði Hallgrímur.
Hallgrímur var svekktur með frammistöðu liðsins í dag og var að vonast eftir meiru frá sínum mönnum.
„Ég vænti meira af mínu liði heldur en þetta í dag. Ég ætla að vona að við lærum af þessu. Það er fullt af leikjum eftir og við höfum ekki svigrúm til að missa stig út af viðhorfi.
Eins og staðan er í dag ætlum við að koma okkur í topp sex og þá þarf ég hundrað prósent frammistöður,“ sagði Hallgrímur.
Viðar Örn Kjartansson var ekki með KA í dag en hann fór meiddur af velli í síðasta leik.
„Hann fékk smá tognun aftur í læri í síðasta leik. Ég reikna með því að hann verði klár í næsta leik,“ sagði Hallgrímur að lokum.