Dómarar verða að bæta samskiptin

Halldór Árnason er þjálfari Breiðabliks.
Halldór Árnason er þjálfari Breiðabliks. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, var ósáttur við framkomu dómara leiksins þegar lið hans gerði jafntefli gegn Stjörnunni, 2:2, í Bestu deild karla í knattspyrnu í Garðabæ í gærkvöldi. 

Emil Atlason kom Stjörnunni yfir með marki úr vítaspyrnu í fyrri hálfleik. Daníel Laxdal ýtti Davíð Ingvarssyni áður en sá síðarnefndi stóð upp og fékk boltann í höndina. 

Halldór vildi sjá dæmt brot á það. 

„Að við fórum 1:0-undir til búningsklefa er gjörsamlega galið. Þeir fá vítaspyrnu sem er gjörsamlega sturlaður dómur. 

Viðbrögðin og skýringarnar frá dómurunum eru enn skrýtnari.“

Bullið sem maður heyrir 

„Mér finnst mikilvægt þegar að þú talar um dómara að þú sjáir atvikin aftur og sért klár á því sem þú ert að segja. 

Það sem gerist í vítaspyrnunni er að Davíð Ingvarsson stendur inn í teig og Emil setur báðar hendur á hann og neglir honum í jörðina. 

Síðan stendur hann upp og á meðan hann snýr sér fær hann boltann í höndina. 

Að það hafi ekki verið dæmt brot þarna er galið. Þetta er brot og gult spjald alls staðar á vellinum. 

Dómarar geta gert mistök og þeir verða gríðarlega ósáttir við sjálfa sig þegar þeir sjá þetta aftur. 

Bullið sem maður fær frá þeim í andlitið eftir þetta truflar mig meira. Lýsingar þar sem Davíð átti að hafa slegið og barið. Ég hvet þá til að senda mér þau atvik og önnur sem gerðust í allt annarri veröld. 

Svo þegar maður reynir að fá skýringar þá er manni hótað rauðu spjaldi. 

Eins og við þurftum að gera betur í pressunni í fyrri hálfleik þá þurfa þeir að gera betur í samskiptum,“ bætti Halldór við. 

Getum ekki látið það stjórna

Breiðablik er sex stigum á eftir toppliði Víkings en á leik til góða. Halldór telur að Blikar megi ekki láta úrslit annarra liða hafa áhrif.

„Við eigum tíu leiki eftir. Við getum ekki látið tilfinningar okkar stjórnast eftir því hvernig fer hjá hinum liðunum. Vera ofsaglaðir þegar þau tapa eða daprir ef þau tapa. 

Við verðum bara að vinna eins mörg stig og við getum. Við tökum seinni hálfleikinn í dag með í leikinn gegn Val á fimmtudaginn.“

Halldór býst ekki við fleiri leikmönnum í sumar en glugginn lokar á morgun.

„Það kæmi á óvart, loka ekki á neitt en á ekki von á því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert