Tveir leikir eru á dagskrá í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld. Óskar Hrafn Þorvaldsson er kominn í þjálfarateymi KR sem fær FH í heimsókn.
Fimleikafélagið er í fjórða sæti með 28 stig en KR er með 15 stig í níunda sæti. Óskar kom inn í þjálfarateymið á dögunum en Pálmi Rafn Pálmason, þjálfari liðsins, bað hann um það. Leikur KR gegn HK átti að vera fyrsti leikur hans en honum var frestað.
Ástbjörn Þórðarson og Gyrðir Hrafn Guðbrandsson, fóru frá FH yfir í KR á dögunum og Kristján Flóki Finnbogason fór í hina áttina. Þeir eru með leikheimild og Gyrðir var í byrjunarliði KR á skýrslunni fyrir leikinn gegn HK og gæti mætt sínu gamla liði strax í dag.
ÍA fær Fram í heimsókn á Skagann klukkan 18.15 í dag. Fram er í fimmta sæti með 26 stig og ÍA er rétt á eftir þeim með 25 stig í sjötta sæti.