14 leikmenn í Bestu deild karla í knattspyrnu hafa verið úrskurðaðir í eins leiks bann.
Þetta kemur fram í úrskurði aga- og úrskurðarnefndar KSÍ.
Stjörnumennirnir Emil Atlason, Guðmundur Kristjánsson og Örvar Eggertsson verða ekki með liðinu gegn KA um helgina en þeir fá leikbann vegna gulra spjalda. Ívar Örn Árnason verður þá ekki með KA vegna sjö gulra spjalda.
Sigurður Egill Lárusson verður ekki með Val í stórleiknum gegn Breiðabliki næsta fimmtudagskvöld.
FH-ingurinn Böðvar Böðvarsson verður ekki með liðinu gegn Val næsta mánudag vegna fjögurra gulra spjalda.
Þá mætast HK og Fylkir í alvöru fallbaráttuslag næsta sunnudagskvöld. Þar verða HK-ingarnir Atli Hrafn Andrason og Ívar Örn Jónsson ekki með og heldur ekki Fylkismaðurinn Ásgeir Eyþórsson.
Steinar Þorsteinsson verður ekki með ÍA þegar liðið heimsækir Víking næsta mánudagskvöld.
Aron Þórður Albertsson verður ekki með KR gegn Vestra næsta laugardag. Vestri verður hins vegar án þriggja lykilmanna en Gunnar Jónas Hauksson, Sergine Fall og Vladimir Tufegzic eru allir í leikbanni.