KA og Stjarnan gerðu jafntefli á Akureyri í dag í 19. umferð Bestu deildsr karla í fótbolta, lokatölur 1:1. Úrslitin þýða að liðin halda stöðu sinni í deildinni og færast einu stigi nær Fram. Stjarnan í 7. sæti og KA í því 8.
KA-menn hófu leikinn af krafti og komust yfir eftir 8 mínútna leik. Hallgrímur Mar lagði boltann á bróður sinn í vörn KA sem flengdi honum í fyrsta fram á Daníel á hægri vængnum. Daníel tímasetti sendingu með réttri vigt fram á Kára Gautason sem gaf fyrir í fyrsta og Ásgeir Sigurgeirson afgreiddi boltann í nærhornið með snyrtilegri klippu.
Stjörnumenn stýrðu leiknum eftir mark KA-manna og gerðu sig oft líklega en Steinþór Már var mjög öflugur í marki KA. Eitthvað þurfti þó undan að láta og á 29. mínútu missti Kári Gautason stungusendingu aftur fyrir sig og teikaði Hauk Örn inn í teiginn þar sem hann flæktist svo í honum svo hann féll við. Vítaspyrna réttilega dæmd sem Jóhann Árni skoraði úr. Steinþór Már valdi hægra hornið en Jóhann Árni setti boltann örugglega í það vinstra.
Í kjölfar jöfnunarmarksins fór KA að sækja meira en norðanmenn höfðu að mestu beitt hröðum sóknum fram að því. KA átti nokkrar þungar sóknir en engin þeirra skilaði marki. Stjörnumönnum tókst heldur ekki að bæta við og líklega var hálfleiksstaðan sanngjörn.
Seinni hálfleikur var líflegur eins og sá fyrri en liðunum tókst ekki að bæta við mörkum. Mestu munaði þar um Steinþór Má í marki KA sem varði oft vel og var óttalaus í úthlaupum og varnarmenn Stjörnumanna sem köstuðu sér fyrir alla bolta. Líklega hefðu bæði lið verið vonsvikin að fara af velli án stiga þó KA hafi kannski verið líklegra liðið til að stela sigrinum undir lokin.
Mbl.is fylgdist með gangi mála á Akureyri og færði ykkur allt það helsta úr leiknum í beinni textalýsingu.