Breiðablik áfram með stórsigri

Liðsmenn Breiðabliks fagna marki í kvöld.
Liðsmenn Breiðabliks fagna marki í kvöld. mbl.is/Árni

Breiðablik valtaði yfir Minsk frá Hvíta-Rússlandi, 6:1, í undanúrslitum 1. umferðar Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld. 

Breiðablik mætir Sporting Lissabon frá Portúgal í úrslitaleik um sæti í 2. umferð á laugardaginn næstkomandi.

Breiðablik náði forystu á annarri mínútu. Katrín Ásbjörnsdóttir skallaði boltann fyrir Vigdísi Lilju Kristjánsdóttur í teignum sem skoraði af miklu öryggi. 

Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði annað mark Blika á 23. mínútu. Samantha Rose Smith fékk frítt skot rétt utan teigs sem Alena Griaznova, markvörður Minsk, varði út í teiginn. Katrín var fyrst á frákastið og kláraði snyrtilega framhjá Griaznova. 

Þremur mínútum síðar skoraði Andrea Rut Bjarnadóttir þriðja mark Breiðabliks. Ásta Eir Árnadóttir átti langan bolta fram völlinn sem Andrea tók niður. Hún keyrði síðan í átt að marki Minsk og lagði boltann í hægra hornið.

Fjórða mark Breiðabliks kom á 34. mínútu. Þar var Smith að verki en hún fékk boltann utarlega í teignum vinstra megin og átti síðan skot með vinstri fæti í fjærhornið. 

Minsk minnkaði muninn í 4:1 á 39. mínútu. Boltinn datt fyrir Liana Miroshnichenko rétt utan teigs sem átti glæsilegt skot, stöngin inn.

Staðan 4:1, Breiðablik í vil þegar flautað var til hálfleiks.   

Katrín skoraði annað mark sitt og fimmta mark Breiðabliks á 53. mínútu. Smith kom með sendingu á Katrínu út í teignum sem skoraði.   

Á 79. mínútu skoraði Katrín þriðja mark sitt. Hún fékk boltann frá Margréti Leu Gísladóttur í teignum, ýtti varnarmanninum af sér og hamraði síðan boltanum í netið.

Mörkin urðu ekki fleiri og því lokaniðurstaða 6:1 sigur Breiðabliks.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Breiðablik 6:1 Minsk opna loka
90. mín. Tvær mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert