Enginn Messi í danska liðinu

Kristall Máni Ingason fyrir landsliðsæfingu í gær.
Kristall Máni Ingason fyrir landsliðsæfingu í gær. Árni Sæberg

Kristall Máni Ingason er í stóru hlutverki hjá U21 árs landsliði Íslands í fótbolta sem og danska úrvalsdeildarliðinu Sönderjyske. Liðið er nýliði í dönsku úrvalsdeildinni og sem stendur í ellefta og næsneðsta sæti með fimm stig eftir sjö leiki.

„Þetta er erfið deild, við erum nýkomnir upp og það tekur sinn tíma að venjast sterkari deild. Við erum búnir að spila vel en þurfum að ná í fleiri stig. Þú ferð ekki að berjast um að vinna deildina þegar þú ert nýliði. Við þurfum bara aðeins að laga einbeitinguna til að fá fleiri stig, því við höfum verið að spila vel,“ sagði Kristall við mbl.is og hélt áfram:

„Við ætlum að byrja á því að halda okkur uppi. Við erum aldrei að fara að falla því við erum með of gott lið til þess. Við byrjum á að halda okkur uppi og svo sjáum við til.“

Kristall Máni Ingason fagnar marki með Sönderjyske.
Kristall Máni Ingason fagnar marki með Sönderjyske. Ljósmynd/Sönderjyske

Kristall átti sinn þátt í að Sönderjyske fór upp um deild á síðasta ári, eins og þeir Atli Barkarson og Daníel Leó Grétarsson. Atli yfirgaf félagið á dögunum og gekk í raðir Zulte Waregem í belgísku B-deildinni. Kristall og Atli voru einnig liðsfélagar hjá Víkingi.

„Hann er einn af mínum betri vinum og einn besti liðsfélagi sem ég hef verið með. Það er alltaf erfitt að kveðja Atla, líka þegar hann fór frá Víkingi,“ sagði Kristall.

Hann er spenntur að vinna með Ólafi Inga Skúlasyni sem tók við U21 árs liðinu á dögunum og er á leiðinni í sitt fyrsta verkefni með liðinu. „Hann er karakter og veit mikið um íþróttina. Maður hlustar og lærir.“

Íslenska liðið mætir því danska og velska í tveimur heimaleikjum og er fyrri leikurinn á morgun. Með tveimur sigrum kemur Ísland sér í afar góð mál í I-riðlinum. Kristall er brattur fyrir komandi verkefni.

„Við erum í bullandi séns. Við byrjum á móti Danmörku og verðum að keyra á þetta. Við viljum sýna hvað við getum og halda í okkar gildi. Þetta er á okkar heimavelli og við ætlum okkur sex stig.

Ég hef spilað við einhverja og með einhverjum hjá Danmörku. Það er enginn Messi í danska liðinu. Við getum pakkað þeim saman. Mér líður vel á þessum velli og ég ætla að setja hann,“ sagði Kristall með sjálfstraustið í lagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert