Gylfi Þór Sigurðsson hefur leikið vel með Val á sínu fyrsta tímabili á Íslandi eftir farsælan feril erlendis. Hefur Gylfi t.a.m. skorað níu mörk í 15 deildarleikjum og lagt upp nokkur til viðbótar.
Hann lék ekki fótbolta sem atvinnumaður í tvö ár og er nú loks að komast í sitt besta stand og að losna við meiðsli, sem hafa verið að hrjá hann undanfarna mánuði.
„Fyrir utan veðrið hefur þetta verið mjög fínt. Það er aldrei gott veður þegar við spilum. Þetta er öðruvísi en maður er vanur en þetta er gott fyrir mig persónulega núna, því þetta er einn leikur í viku. Fram að því var þetta þétt prógramm.
Loksins er ég kominn í gott stand og mér líður vel. Fyrst núna er ég verkjalaus og ég er byrjaður að geta æft almennilega á milli leikja. Fyrst var þetta leikur, endurheimt og svo beint aftur í leik. Þess vegna er það mjög gott að fá bara einn leik í viku núna. Mér líður vel í líkamanum og vonandi get ég bætt mig enn meira,“ sagði Gylfi við mbl.is.
Valur tapaði fyrir Íslands- og bikarmeisturum Víkings í rosalegum leik í síðustu umferð, 3:2, og er ljóst að Hlíðarendaliðið verður ekki meistari í ár.
„Deildin er búin núna. Víkingur eða Breiðablik eru að fara að vinna þetta. Það er mikið svekkelsi hjá öllum í hópnum og félaginu,“ sagði Gylfi.