Var mjög lengi að jafna mig

Ísak Bergmann Jóhannesson á landsliðsæfingu.
Ísak Bergmann Jóhannesson á landsliðsæfingu. Eyþór Árnason

Landsliðsmaðurinn Ísak Bergmann Jóhannesson ákvað að vera áfram hjá þýska knattspyrnufélaginu Düsseldorf þrátt fyrir að liðinu hafi mistekist að fara upp í efstu deild á síðustu leiktíð. Hann er því á sínu öðru tímabili í B-deildinni.

Ísak var ákveðinn í að vera áfram hjá félaginu, en auðvitað var hann spenntari fyrir efstu deild Þýskalands, sem er ein sterkasta deild í heimi. Düsseldorf tapaði úrslitaleik umspilsins við Bochum í vítakeppni á síðasta tímabili.

„Eina sem var ekki planað er að við erum áfram í B-deildinni. Við áttum gríðarlega gott síðasta tímabil og vorum grátlega nálægt því að fara upp. Mér líður ótrúlega vel og ég hef spilað allar mínútur hingað til á leiktíðinni. Ég er að spila á miðri miðjunni, sem er gott fyrir mig upp á landsliðið að gera. Ég er spenntur fyrir komandi tímum,“ sagði Ísak við mbl.is.

Ísak Bergmann Jóhannesson er ánægður hjá Düsseldorf.
Ísak Bergmann Jóhannesson er ánægður hjá Düsseldorf. Ljósmynd/Düsseldorf

Ísak var ekki almennilega inni í myndinni hjá FC Kaupmannahöfn í Danmörku og fór því á lánssamningi til Düsseldorf, sem nú hefur keypt Skagamanninn. Hann hefur fengið traust þjálfarans frá fyrsta degi hjá þýska liðinu.

„Düsseldorf tók rosalega vel á móti mér og hefur gert mikið fyrir minn feril. Ég er ótrúlega þakklátur og því vildi ég vera áfram. Nú vil ég fara með liðinu upp í efstu deild, spila fullt af leikjum og vera lykilmaður. Það er mikilvægt fyrir ungan leikmann að fá að spila og þróast sem leikmaður,“ sagði Ísak.

Það tók sinn tíma að jafna sig á vonbrigðunum í lok síðasta tímabils.

„Ég var mjög lengi að jafna mig. Þetta var eitt það erfiðasta sem ég hef upplifað á ferlinum. Við vorum svo rosalega nálægt því að fara upp í efstu deild, sem hefði verið draumur. Það var enn þá verra að þetta endaði í vítakeppni.

Við höfum byrjað tímabilið núna vel og við erum efstir, þótt við höfum ekki verið að spila gríðarlega vel. Við höfum fundið leiðir til að vinna leikina. Það sýnir mikinn styrk að byrja þetta tímabil vel eftir áfallið í lok síðasta tímabils,“ sagði Ísak.

Hlutverk Ísaks hefur breyst, sem hann telur koma sér vel þegar kemur að landsliðinu.

Ísak Bergmann Jóhannesson fagnar í sigrinum á Englandi í sumar.
Ísak Bergmann Jóhannesson fagnar í sigrinum á Englandi í sumar. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Ég er kominn aftar á völlinn, sem ætti að koma sér vel þegar kemur að landsliðinu. Við spilum 4-4-2 og ég vil vera einn af þessum tveimur á miðri miðjunni. Það er mikilvægt að fá að spila alla leiki þar, svo ég geti sýnt mig og sýnt að ég á heima á vellinum í landsliðinu.“

Stemningin í þýska fótboltanum er engu lík og venst seint.

„Maður fær smá sjokk í hvert skipti sem maður labbar út á völl. Það er rosalega góð umgjörð í kringum leikina og þótt við séum í B-deildinni er stemningin ótrúleg. Það eru aðeins fleiri áhorfendur í þremur deildum í heiminum en í B-deildinni í Þýskalandi. Þetta er hálf fáránlegt,“ sagði Ísak.

Nánar er rætt við Ísak í Morgunblaðinu sem kom út í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert