Glæsilegur sigur á Dönum

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta skipað leikmönnum 21 árs og yngri vann glæsilegan sigur á því danska, 4:2, í undankeppni EM á Víkingsvelli í dag. Danir eru áfram toppsæti I-riðils með ellefu stig, eins og Wales. Ísland er í þriðja sæti með níu stig og leik til góða.

Leikurinn byrjaði fjörlega og bæði lið fengu fín færi til að skora fyrsta markið snemma leiks. Hilmir Rafn Mikaelsson slapp einn í gegn strax á 5. mínútu en Filip Jörgensen í danska markinu varð vel frá honum.

Ísak Andri Sigurgeirsson átti skot rétt framhjá á 9. mínútu, tveimur mínútum eftir að Mathias Kvistgaarden skallaði boltann í þverslána.

Fyrsta markið kom á 16. mínútu og það gerði William Osula þegar hann skoraði með hnitmiðuðu skoti úr teignum eftir snögga skyndisókn.

Ellefu mínútum síðar var staðan orðin 1:1 eftir einstaklingsframtak hjá Kristali Mána Ingasyni. Kristall tók boltann af Oscar Fraulo á miðjum vallarhelmingi Dana, brunaði fram völlinn og skoraði.

Íslenska liðið varð sterkara eftir markið og Ari Sigurpálsson breytti stöðunni í 2:1 á 40. mínútu er hann afgreiddi boltann snyrtilega í markið með viðstöðulausu skoti eftir sendingu frá Eggerti Aroni Guðmundssyni.

Reyndist það síðasta mark hálfleiksins, þrátt fyrir að Hilmir Rafn hafi fengið gullið tækifæri til að skora þriðja markið í blálok hálfleiksins en hann skallaði yfir af stuttu færi.

Danir byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og Mathias Kvistgaarden jafnaði í 2:2 með góðu skoti utan teigs eftir að íslenska liðið náði ekki að hreinsa almennilega.

Á 70. mínútu dró til tíðinda. Hilmir Rafn var þá við það að sleppa í gegn og varamaðurinn Sebastian Otoa tók hann niður. Úkraínski dómarinn Oleksii Derevinskyi dæmdi víti og rak Otoa af velli.

Kristall Máni Ingason fór á punktinn, skoraði og kom Íslandi aftur yfir. Örfáum mínútum síðar var Kristall aftur á ferðinni þegar hann skoraði sitt þriðja mark og fjórða mark Íslands. Hann fylgdi þá vel á eftir þegar Jörgensen í danska markinu hélt ekki boltanum eftir skot Andra Fannars Baldurssonar.

Reyndist það síðasta mark leiksins og Ísland fagnaði sætum sigri.

Ísland U21 4:2 Danmörk U21 opna loka
90. mín. Ísland U21 fær hornspyrnu Danir verjast vel.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert