Veit ekki hvort þeir óska mér til hamingju

Íslenska liðið fagnar marki í dag.
Íslenska liðið fagnar marki í dag. Eyþór Árnason

Bakvörðurinn Daníel Freyr Kristjánsson lék afar vel þegar íslenska U21 árs landsliðið vann sterkan sigur á Danmörku, 4:2, í undankeppni Evrópumóts karla í fótbolta í Víkinni í dag. Daníel fór 17 ára gamall til Midtjylland í Danmörku og þekkir danska liðið vel.

„Það var geggjað að spila á móti strákum sem þú þekkir vel og vinna svona stóra þjóð. Það er mikið hugsað um þennan árgang í Danmörku og það var geggjað að vinna þennan leik nokkuð þægilega. Það gerir mikið fyrir íslenskan fótbolta,“ sagði hann við mbl.is.

Þrátt fyrir að sex mörk hafi litið dagsins ljós í leiknum hefðu þau getað verið fleiri, þar sem bæði lið sköpuðu sér mikið af færum. Vendipunkturinn kom á 70. mínútu í stöðunni 2:2 þegar Sebastian Otoa braut á Hilmi Rafni Mikaelssyni innan teigs og niðurstaðan var víti og rautt.

Kristall Máni Ingason skoraði úr vítinu og skoraði sitt þriðja mark og fjórða mark íslenska liðsins skömmu síðar.

„Þetta var mjög opinn leikur miðað við landsleik. Þeir eru oftast frekar lokaðir en þetta var mjög opið og mikið af færum. Rauða spjaldið hjálpaði okkur og gerði þetta þægilegt. Hilmir pakkaði hafsentinum þeirra saman.

Við fengum mikið af góðum færum í teignum, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við áttum mörg upphlaup upp báða kantana og í gegnum miðjuna. Forskotið hefði alveg getað verið stærra,“ sagði hann.

Daníel lék með 17 leiki með U19 ára landsliðinu, en hann var aðeins að leika sinn annan leik fyrir U21 árs liðið. Hann var einn besti leikmaður Íslands í dag.

„Liðsfélagarnir hafa gert þetta skref léttara. Þeir hafa gert mig enn betri og ég hef verið fljótur að aðlagast,“ sagði hann.

Daníel þekkir marga í Danmörku enda verið búsettur þar undanfarin tvö ár. „Ég fer beint í að senda á þá núna. Ég veit ekki hvort þeir óska mér til hamingju eða segja mér að fokka mér,“ sagði Daníel hlæjandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka