Vorum að rífast aðeins

Mikael í baráttunni í kvöld.
Mikael í baráttunni í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Mikael Neville Anderson leikmaður íslenska landsliðsins í fótbolta var kátur með sigur á Svartfjallalandi, 2:0, á Laugardalsvelli í Þjóðadeildinni í kvöld.

„Þetta var fínasta frammistaða hjá liðinu, við höldum hreinu og skorum tvö mörk úr horni. Þetta var frábær sigur fyrir okkur og það var gott að ná í fyrsta sigurinn í Þjóðadeildinni,“ sagði Mikael í samtali við mbl.is.

Mikael hefur verið inni og út úr byrjunarliði Íslands undanfarin ár og var kátur með að fá tækifærið í byrjunarliðinu í kvöld.

„Ég elska að spila og alltaf þegar ég fæ sénsinn er ég ánægður með það. Þetta var allt í lagi frammistaða í dag og vonandi fæ ég að spila aftur á mánudaginn,“ sagði hann.

Milutin Osmajic fékk gult spjald fyrir að ýta Mikael þegar boltinn var hvergi nærri um miðjan fyrri hálfleik. „Við vorum að rífast aðeins og þetta var ekkert alvarlegt. Þetta gerist í fótbolta.“

Mikael er ánægður með þann stað sem íslenska liðið er á í dag og spenntur fyrir framhaldinu.

„Það eru margir ungir og spennandi leikmenn í þessum hóp og margir þeirra eru að stíga spennandi skref. Ég er mjög bjartsýnn upp á framhaldið.

Það eru margir íslenskir leikmenn að gera góða hluti með félagsliði líka. Orri var með gott mark í dag og hann er að taka flott skref til Sociedad.“

Næsti leikur er á útivelli gegn Tyrklandi í miklum látum í Izmir. „Ég get ekki beðið eftir svona stemningu. Vonandi náum við í þrjú stig þar líka,“ sagði Mikael.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert